Monday, August 4, 2008

Mynd af Hanak fyrstu háskólastúlkunni okkar


Mynd Nouria Nagi

Þetta er Hanak Mohamed AlMatari, fyrsta stúlkan sem studd er af þessum hópi og hefur háskólanám í haust. Það er ekki sjálfgefið að stúlkur á þessum aldri kæri sig um að myndir séu teknar af þeim, með andlit óskýlt. Engin kúgun er þar í gangi heldur er þetta einfaldlega hefð sem stúlkurnar vilja virða. Nouria útskýrði fyrir Hanak að við hefðum áhuga á að fá mynd og hún lét til leiðast.

Hún er 19 ára og hefur notið stuðnings Litlu fjölskyldunnar, þ.e. Ragnheiðar Gyðu Jónsd. Oddrúnar Völu og Guðrúnar Þórarinsdóttur, síðan við byrjuðum að styrkja krakkana fyrir þremur árum.

Ég endurtek það sem ég hef sagt áður að það er mjög merkilegur áfangi að bláfátæk stúlka, sem er komin á giftingaraldur í sínu heimalandi, ákveður að fara í háskóla. Og nema þar hagfræði og stjórnmálavísindi.

Foreldrar hennar sýna henni skilning og styðja hana, þó ekki geti þau gert það peningalega því fjölskyldan er blásnauð eins og raunar allar fjölskyldurnar sem um er að tefla.
Þrjár aðrar systur hennar eru styrktar af Íslendingum, mér skilst að þær stefni allar á háskólanám þegar þær hafa aldur til.
Auk þess á hún fimm bræður og fjölskyldan býr í tveggja herbergja húsnæði í verksmiðju í Hadda útborg Sanaa. Faðirinn fær húsnæðið fyrir gæslustörf þar en engin laun. Móðirin vinnur við ræstingar og hefur sömuleiðis sótt fullorðinsfræðslunámskeiðin.
Ég held það sé óhætt að segja að við erum stolt af Hanak og óskum henni velfarnaðar. Vonandi feta fleiri í hennar fótspðr.

Nouria hefur einnig ýmsar hugmyndir - þ.e. þegar nýja húsið fyrir stöðina í Sanaa verður að veruleika - að bjóða upp á nám í iðngreinum fyrir krakka sem af ýmsum ástæðum fara ekki í háskóla en vilja afla sér starfsmenntunar.

Þetta mætti líka vera okkur hvatning að styðja vel við krakkana. Enn eru um 40 börn sem við höfum styrkt þessi þrjú ár sem vantar stuðningsmenn, þe. styrktarmenn hafa ekki staðfest að þeir haldi áfram með sína krakka. Þar sem fólk skuldbindur sig aðeins ár í senn verð ég að leggja ríka áherslu á að menn láti mig vita hvort þeir ætla að halda áfram. Ef menn hætta af einhverjum ástæðum verður að útvega nýja og bið ég menn gefa sig fram í það. Í pistli hér fyrir neðan eru nöfn krakkanna sem eru ekki komin með stuðningsmenn.

2 comments:

Anonymous said...

Yndislegt! Maður hrópar "húrra" og klökknar í senn.

Eygló

Anonymous said...

Flott ljónynja!
kv,
Valdís með hjartað barmafullt af stolti;)