Sunday, August 10, 2008

Lokaspretturinn fyrir markaðinn hafinn------


Mynd frá YEROmiðstöðinni. JK

Sæl öll
Þá er að hefjast lokaspretturinn fyrir markaðinn okkar þann 30.ágúst í Perlunni svo við getum búið börnunum okkar og konunum, kennurum og öðrum sem að því koma



betri aðstöðu. Í stuttu máli: keypt nýtt hús.
Aðgerðarhópurinn kvennanna undir forystu Sigþrúðar Ármann, Ásdísar Höllu, Hlínar Sverrisdóttur, Margrétar Pálu, Rannveigar Guðmundsdóttur og fleiri hefur lagt dag við nótt að safna hugmyndum og framkvæma þær, undirbúa og skipuleggja.

EN VIÐ ÞURFUM AÐ FÁ FLEIRI í lið með okkur til að gefa varning, vinna á markaðnum þann 30.ág, sortera og verðmerkja, baka Fatímukökur og koma út til sem flestra að þetta stendur fyrir dyrum.
Á þrðjudag kl. 16-20 og miðvikudag á sama tíma, fimmtudag kl 11-13 verður tekið á móti hlutum, fötum nýjum sem notuðum, skrauti, munum af öllu tagi. Allt skal vera vandað og hreint og eftirsóknarvert.

Fjölmiðlakynning verður á þriðjudag og vonandi að fjölmiðlar geri þessu máli góð og hressileg skil. Margir mjög kröftugir og þekktir einstaklingar leggja okkur lið og þar nefni ég t.d. Vigdísi Finnbogadóttur, Friðrik Sophusson og Sigríði Dúnu, Daníel Haraldsson og Gabrielu Friðrikdsdóttur, Björn Bjarnason og Rut Ingólfsdóttur, Baltasar Kormák og Lilju Pálmadóttur, Krumma í Mínus, Svöfu Grönfeldt, knattspyrnumennina Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni og Tryggva Guðmundsson, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Þórunni Sveinbjarnardúttur, Andreu Róbertsd og ótal marga fleiri. Allt ætlar þetta fólk - og fleira að gefa á markaðinn og styðja málið með ráðum og dáð. Og gleymi ég ekki öllum þeim ötulu VIMAfélögum sem hafa þegar gefið á markaðinn, boðið sig fram í vinnu, ætla að láta varning á markaðinn osfrv.

Einnig verður uppboð á málverkum, persneskri silkimottu, listaverki eftir einn frægasta listamann þjóðarinnar nú - sem ég segi frá ögn síðar hver er -og ég veit ekki hvað.

Er rétt að byrja að setja mig inn í þetta eftir að hafa verið í leti og berjamó og fjölskyldusamveru í Trékyllisvík.

Margt þarf að gera á þessum skamma tíma sem er fram að markaði og ég treysti á velvilja og hjálp ykkar VIMAfélaga og annarra sem styðja okkur gegnum þykkt og þunnt.

Þá er gott að gera þess að tveir stuðningsmenn til viðbótar hafa staðfest að þeir styrki sín börn áfram og þrír nýir hafa bæst við.

Vonast til að sjá sem allra flesta koma með eitthvað til okkar í Síðumúlann.

No comments: