Friday, August 22, 2008

Hreint og beint geggjað



að fylgjast með leiknum við Spánverja áðan. Ég brýt flest prinsipp og geri mér mat úr þessu. Ólafur Stefánsson er náttúrlega kjölfestan, fyrir utan þann galdur sem sá maður býr yfir. Til sálar ekki síður en líkama.
Og eins og aðrir hef ég dálæti á öllum þessum strákum, ég tala nú ekki um Sigfús bangsa og Guðjón Val. Og allir hinir. Mér finnst sniðugt að sjá Loga Geirsson síðustu ár, því ég hef fylgst með handbolta síðan Geir faðir hans var upp á sitt besta. Það var mikill snillingur. En þeir eru ekki líkir í boltanum, feðgarnir þó báðir flottir.

Nú að þessari útrás fenginni: Hef fengið svör frá mjög mörgum sem vilja vinna á markaðnum og hjálpa til við að flytja allan varninginn á föstudag eftir viku. Það er dálítill höfuðverkur en leysist með nokkrum bréfum í viðbót frá ykkur. Bið ykkur að láta frá ykkur heyra og þakka þeim sem þegar hafa gert það.

Þá eru bókaðar hjá mér tæpar 40 Fatimukökur. Þurfum vonandi fleiri. Fljótt að koma ef menn leggja fram eina köku eða tvær. Þessar kökur er best að koma með í Síðumúlann og ég tek þær svo og geymi í frysti þar til í næstu viku.

Sýrlandsfundur í gær var hinn ljúfasti og gagnlegasti. Til þess eru líka þessar sammenkomstur að menn fræðist og geti spurt og hafa allt á hreinu. Takk fyrir það.
Einn þátttakanda átti afmæli og annar hafði átt afmæli daginn áður svo við byrjuðum auðvitað með að syngja afmælissönginn.

Edda Ragnarsd seldi þar sína listilega gerðu punga (og allt rennur í Fatímusjóðinn- tölum ekki um vinnu hennar, auðvitað gefin) og Gulla rukkaði félagsgjald. Svo mauluðum við íranskar hnetur, döðlur og súkkulaðirúsínur með te eða kaffi.

Þá er rétt að taka fram á síðasti móttökutakur varnings er n.k. fimmtudag. Ath það Og við getum ekki tekið við neinu í Perlunni á laugardag nema fólki til að vinna og fólki til að kaupa.

1 comment:

Anonymous said...

Ég undrast ekki að handboltahetjurnar hafi komist fyrst á blað hjá þér, þegar ÉG sem veit hvorki haus né sporð á neinum íþróttagreinum, í besta falli veit ég að maður þvær sér fyrir laugarferð.
Þar sem ég sat fyrir framan sjónvarpið að leik loknum... FÓR ÉG AÐ GRÁTA! Ekki með hljóðum (enda þýðir það ekki þegar maður býr einn) en tár láku og ég ákvað að sækja ættleiðingarumsóknarpappíra og ættleiða þá alla!!!!!!!!!!!!!
Þjóðarstoltið gæti farið að nálgast -rembing. Ég var farin að rökræða við Spánverjana um S-Ameríku... fyrir framan skjáinn. Sennilega er ég farin yfrum, bara veit það ekki... enn.
Eygló Yngvad