Saturday, December 27, 2008

Vangaveltur við áramót

Sæl öll og takk kærlega fyrir kveðjur og vinaleg orð.

Nú líður senn að því að ég geti gefið mönnum hugmyndir um verð á síðustu ferðalögunum því eins og fram hefur komið ætla ég að hætta þessum ferðum að árinu 2009 liðnu og snúa mér að öðru ef guð lofar.
Hér að neðan eru myndir frá flestum áfangastöðum okkar eða myndir sem tengjast þeim á einn eða annan hátt.

Ég veit að það eru erfiðir tímar en ég hef engu að síöur trú á því að Vima fólk og fleiri áhugasamir hafi í huga að reyna að veita sér ferðalög sem eru sérstök og að ekki sé nú talað um ferðafélagana sem virðast einstakir að mínum dómi í hverri einustu ferð.

Það skal tekið fram að ég set hér myndir frá Óman og Egyptalandi og er ferð til annars hvors þeirra hugsuð í nóvember. Hef ekki trú á að þátttaka náist í báðar en auðvitað væri það bæði skemmtilegt og æskilegt.

Þá hef ég hugsað mér að sleppa Azerbajdan í Kákasuslandaferð. Ástæður eru að Azerbajdanleggurinn hleypir ferðinni upp úr öllu valdi í verði og mér þótti mjög augljóst í fyrri ferðinni á þessar slóðir að Georgía og Armenía voru þau lönd sem heilluðu menn sérstaklega.

Ég bíð nú eftir svari frá hinum aðskiljanlegum samstarfsmönnum mínum. Sú breyting hefur orðið vegna gengismálaruglsins að flugferðir eru tiltölulega stærri hluti kostnaðar en hefur verið. Vonandi skýrast málin hið fyrsta.
Þá er nokkurn veginn augljóst að séu þátttakendur færri en tuttugu fellur ferð niður.

Þakka þeim sem hafa skrifað mér um málin og mun birta verð (með fyrirvara vitaskuld) eins fljótt og verða má.



Abu Simbel hofið í Egyptalandi


Ómanskur karladans


Samarkand í Úzbekistan


Edda í sandi í Sahara. Úr Líbíuferð


Frá Isfahan í Íran. Krakkarnir busla í tjörninni við stærsta opna torg í heimi. IMAM moskan í baksýn

Mynd Einars Þorsteinssonar úr piparkökuborginni Sanaa í Jemen


Kákasuslandahópurinn 2007 ásant Sofíu leiðsögumanni okkar í Georgíu sem varð hvers manns hugljúfi


Frá safninu um líbanska vitringinn og málarann Khalil Gibran í Líbanonfjöllum

Bið hvern og einn að senda slóðina áfram því ég veit að margir eru áhugasamir og þurfa að íhuga málin og ákveða sig senn

Óska öllum gleðilegs árs og þakka liðið

1 comment:

Anonymous said...

Kæra Jóhanna!
Þakka þér góð skrif sem ég les af miklum áhuga, þakka þér einnig jólakveðju og óska þér til hamingju með kjörið Kona ársins 2008, það er virkilega verðskuldað.
Bestu kveður,
Jósefína Friðriksdóttir,
Selfossi