Friday, January 23, 2009

Það er ekki um annað að tefla en aflýsa Líbanon og gert hér með- Íran hefur von


Miðbærinn í Beirut

Ég á ekki um neitt að velja: hér með er aflýst Líbanonferðinni sem var fyrirhuguð í mars. Það er verra en afleitt en er endanlegt þar sem aðeins sex manns höfðu staðfest sig í þá ferð. Vonandi tekst síðar að efna í Líbanonferð. Veruleg vinna hafði verið lögð í undirbúning en hann fer nú fyrir lítið og ekkert meira um það að segja. Þakka þeim sem vildu koma með en það dugði sem sagt ekki til.


Kristrún, Hossein Facebookvinur og teppasali í Isfahan og JK

Það lítur út fyrir að Íranferð haldist inni. Mikið væri það nú gleðilegt.

Er að bauka við það og bíða eftir svari frá nokkrum sem eru vel volgir og vænti þess að fá svör. Ég var svo bjartsýn að búast við að kannski kæmu fleiri og er því með átján miða pantaða- þó svo að lágmark eigi raunar að vera 20 -. Að gefnu tilefni tek ég fram að sú ferð hækkar ekki.

Ég vil líka benda fólki á að upphæðin 475 þúsund er brúttó. Síðan dregst frá sú upphæð á Íslandsleggnum sem nemur púnktaeign þátttakenda.

Auk þess ræddi ég við Shapar ferðaskrifstofustýru í gærkvöldi hvort hugsanlegt væri að einhver smáafsláttur yrði veittur þó við værum færri en til stóð. Hún lætur mig vita á mánudag og ég er sannfærð um að hún gerir það sem hún getur.

Þetta er auðvitað allt hið flóknasta mál og ég reikna með að Kákasusferðin detti út líka. Þá gætu etv þeir sem ætluðu þangað skellt sér í Íranferð eða hvað segið þið um það?

Varðandi Úzbekistan/Kyrgistan ferðina í haust verður hún dýr, aldrei undir 800 þús.kr og munar þar mestu um að verð á flugmiðum er mjög hátt þangað.

Egyptalandsferð er enn inni og verð á henni þokkalegt sem stendur.

Þá ætla ég að þakka sérstaklega nokkrum sem hafa haft samband og hafa styrkt fullorðinsfræðslunámskeiðið okkar í Sanaa og vantar nú ekki nein ósköp upp á að það sé fullstyrkt.

Ég ætla líka að halda í þá von að Jemen/Jórdanía detti ekki út. Það gæti verið að ég færði hana til fyrst útlitið er svona með Kákasus.

Ég er verulega vonsvikin yfir því hversu fáir skrifuðu inn á ábendingadálkinn í gær til að hvetja til Íransferðar en þakka þeim sem það gerðu kærlega.

Látið frá ykkur heyra.

Eins og ég sagði frá fór ég á Akranes á dögunum til að tala við stuðningsfólks Palestínukvennanna. Það var ánægjulegt kvöld og til fyrirmyndar að heyra hversu vel gengur. Hef verið beðin að koma þangað aftur, jafnvel á tveggja kvölda námskeið og þarf þá að útbúa disk/kubb til sýningar. Ég stóla dálítið á að Gulla pé hjálpi mér við það.

2 comments:

Anonymous said...

Tilkynni hér með að ég sendi slóðina þína út og suður reglulega.
Kkv. Þóra J. :)

Anonymous said...

Hef fengið slatta af bréfum þar sem sagt er að erfitt sé að komast inn á ábendingadálkinn.
Veit ekki hvað veldur, fyrst tölvusjeníi á borð við mig tekst það, hlýtur að vera eitthvað annað
KvJK