Saturday, January 17, 2009

Myndakvöld og eilítið tuð- aldrei þessu vant


Sólarlag við Dauða hafið. Sést svo yfir til Írsael handan hafs


Maja og Þór, frumkvöðlar að Sýrlands/Jórdaníuferð sl. sept. Báðar myndirnar tók Sigurður Júlíusson

Í kvöld laugardag var efnt til myndakvölds í Þrúðvangi hjá Sigríði Harðardóttur og Páli Bjarnasyni fyrir Sýrlands/Jórdaníuhópinn í september. Það var María Heiðdal sem af hinum mesta skorungsskap smalaði saman vinum og kunningjum og kunningjum þeirra og ég bætti svo við þremur svo við næðum tilskildum fjölda. Maja og Þór höfðu farið áður en voru sammála um að þau hefðu í raun notið ferðar númer tvö mun betur og það segja ýmsir sem hafa farið oftar en einu sinni í sömu ferð.

Páll flutti skemmtilega frásögn af Þrúðvangi og búsetu Einars skálds Benediktssonar í þessu glæsilega húsi á sínum tíma. Svo var boðið til dýrðlegs kvöldverðar sem þau hjón hövðu veg og vanda af og við lögðum í púkk fyrir kostnaði. Myndasýningin var með afbrigðum skemmtileg og kvöldið allt hið ljúfasta og takk fyrir það.

Á mánudagskvöld skrepp ég á Akranes að rabba við stuðningsfólk palestínsku fjölskyldnanna sem hafa nú verið búsettar á Akranesi í nokkra mánuði og gengið vel en fjölskyldurnar vilja fá svör við ýmsum spurningum og ekki nema sjálfsagt og eðlilegt. Reyni að svara því sem ég get.

Á þriðjudag kemur væntanlega Fréttabréfið úr prentun og verður póstlagt hið skjótasta og er þar margt girnilegt lesefni.

Þar er einnig listi yfir hugsanlegar ferðir 2009 og það verður að tilkynna sig í Líbanonferðina fyrir 25.jan. Íranferð ( sem verður annað hvort 6-20 apríl eða 9.-23.apríl) þarf að vera skipuð og staðfest um svipað leyti þar sem lengri frest þarf, Kákasuslandaferð þarf að vera tilkynnt fyrir 10.febr. og Jemenferð sem er fyrirhuguð í lok maí á sama tíma.
Þetta verður ekki áréttað nógsamlega. Ég hika ekki við að aflýsa ferðinni til Líbanon ef ég fæ ekki svör frá þeim sem höfðu lýst áhuga en ekki ítrekað það.

Ég er satt að segja orðin leið á því að fá ekki svör. Víst geri ég mér grein fyrir erfiðleikum en það er ógerningur fyrir mig að bíða lengur en upp er talið hér. Vil þó nefna að ýmsir hafa látið vita og takk fyrir það.

Hef reynt að hafa ferðirnar á skikkanlegu verði og þykir ekkert skemmtilegt að þurfa að hækka þær. En ég held það séu allir nema pólitíkusar og mjög lítt hugsandi fólk sem gerir sér ekki grein fyrir því að krónan hefur lækkað ansi verulega og þetta er óhjákvæmileg ráðstöfun.
Hvarflar ekki að mér að hafa uppi afsakanir því málið hef ég reynt að vinna eins vel og sanngirnislega og mér er unnt.

No comments: