Sunday, January 11, 2009

Fundur stuðningsforeldra var glæsilega sóttur - og Jemenáætlun birt innan tíðar


Frá fundinum í dag. Dóminik tók myndina

Held að óhætt sé að segja að fundur stuðningsforeldra Jemenbarnanna okkar í dag hafi tekist mjög vel. Fólkið sem mætti styður um fimmtíu af börnunum okkar og var einstaklega góð stemning. Ég sagði frá starfinu í YERO og lýsti högum barnanna, afhenti nýjum stuðningsmönnum sín plögg og svo var beint til mín mörgum og góðum spurningum sem ég reyndi að leysa úr eftir bestu getu.
Mun senda þeim nýju stuðningsmönnum sem komust ekki á fundinn sín plögg núna eftir helgina.

Myndir voru látnar rúlla á tjaldi og ýmsir Jemenfarar könnuðust við sig og sín börn.
Svo mauluðum við indælis smákökur og annað sætmeti með te og kaffidrykkju í bland.

Allmargar myndanna eftir krakkana seldust en fáeinar eru þó eftir og vona að einhverjir gefi sig fram þar. Þær kosta 5-7 þúsund stk.

Mér fannst sérstaklega gaman að sjá þarna ýmsa sem styðja dyggilega krakkana en ég hef aldrei hitt heldur hafa samskipti verið um netfang og síðuna.
Einnig hafði ég fengið kennara þeirra í Sanaa til að gera umsagnir um ýmsa krakkana og höfðu menn gaman að því að heyra um framgang þeirra.

Þetta var sem sagt hið ágætasta mál. Hvet menn eindregið til að hafa samband, annaðhvort beint við Nouriu eða við mig ef þeir vilja fá einhverjar frekari upplýsingar.

Jemenferð innan tíðar
Þess er ekki langt að bíða að ég geti birt áætlun Jemenferðar fyrir vorið. Fékk svar og drög að áætlun frá köllunum mínum í Sanaa í morgun og mér sýnist að Jemenferðin muni hækka minna en aðrar - sagt með fyrirvara þó.

Góðar undirtektir við Íran og Kákasus
Enn er ekki komið á hreint hvernig verður með fyrstu ferðirnar þrjár en heyrist eftir því sem menn láta mig vita að af þeim öllum verði - ef guð lofar. Og svo má gjarnan tilkynna sig í Jemenferð í lok maí um leið og verðhugmynd er komin.
Kærar þakkir fyrir góða stund í dag.

2 comments:

Anonymous said...

Sæl Jóhanna,
og takk fyrir síðast!
Er búin að greiða 5000 kr fyrir mynd inn á reikning 1151-15-55121; kt. 140240-3979.

Vil bara minna þig á áhuga minn á ferð til Líbanon + viku í Sýrlandi.

Kærar kveðjur,
Catherine

Anonymous said...

Takk fyrir, Catherine. Allt meðtekið
KvJK