Monday, March 30, 2009

Hefð okkar vex í Íran - munið að Marokkóferð virðist full og sitthvað fleira sem menn skyldu kynna sér


Frá torginu tilkomumikla í Isfahan

Það líður ekki á löngu uns fimmti VIMA hópurinn fer til Írans og hef nú fengið bréf frá Shahpar ferðaskrifstofustýru þar sem hún vekur athygli á að þar sem við förum nú yfir 100 gesti ætli hún að hækka okkur upp og við verðum á enn betri hótelum - og hefur þó sannarlega ekki verið undan neinu að kvarta nema síður sé. Ég mun seinna í dag eða á morgun senda Íranförum nöfn og símanúmer á þessum stöðum til að þeir geti skilið upplýsingar eftir hjá sínu fólki.

Þá skal ítrekað að ég hef verulega mikinn áhuga á að við efnum til annarrar ferðar til Íran í lok sept nk vegna þess að ýmsir komust ekki með í þessa ferð sem höfðu áhuga á. Það er samt nauðsynlegt að bæta við í hana svo af verði og bið menn að láta mig vita um áhuga sinn og það helst áður en við höldum af stað nk mánudagsmorgun.
Ég get ekki gefið verð eða nákvæmar dagsetningar fyrr en í ljós kemur hvort af verður - og er raunar nokkuð sannfærð um að okkur tekst að hóa saman fólki í þá ferð.

Jemen/Jórdanía er í besta lagi
þann 5.maí og bið þá ferðalanga að ganga frá seinni greiðslu ekki síðar en á föstudag.Þar eru allir eftirvæntingarfullir og þá meina ég bæði hér og í Jemen. Héðan af bæti ég EKKI í þá ferð.

Marokkó virðist fullskipuð
Það sýnir hversu ánægðir VIMA félagar eru að Marokkóferðin 5.-16.sept er líka setin þó ég geti bætt þar aðeins við. Marokkófélagar skulu greiða staðfestingargjald nú um mánaðamótin og hafa allir fengið beiðni þar um. Verður spennandi að efna í þá ferð.
Ég ætla að skreppa þangað í júní í viku til að fara yfir áætlunina með þeim ferðaskrifstofumönnum okkar þar á bæ.

VIMA er fimm ára í apríl
Þann 27.apr. 2004 var Vina og menningarfélag Miðausturlanda stofnað og síðan hefur félagafjöldi amk. fimmfaldast og er það hið besta mál. Aðalfundur/afmælisfundur verður ef ég man rétt 3.maí og auk aðalfundarstarfa höfum við fengið ljúfan Marokkómann sem hefur búið á Íslandi í mörg ár til að tala þar og sýna myndir og er það tilhlökkunarefni.

Þegar litið er á Facebook - sem hálf þjóðin virðist dottin í þessa mánuðina- er sýnilegt að Egyptaland er á dagskrá hjá mörgum.
Við höfum eina Egyptalandsferð á planinu okkar í byrjun nóv. Í þá ferð þarf ég verulegan hóp til að úr verði. Hafa það bak við eyrað. Sama máli gegnir með Líbíu sem sló svo rækilega í gegn í fyrra. Þessar tvær ferðir plús Íran í sept lok bíða eftir fleiri þátttakendum.

Það er mjög misjafnt hvað menn eru duglegir að fá vini og ættingja í ferðir og ég hvet menn eindregið til að láta orðin jákvæð berast.

Bið menn að hafa enn og aftur í huga að ekki stendur til að efna í fleiri ferðir á mínum vegum að liðnu þessu ári.

Því er gott að enda það með glæsibrag- og er svo sem allt útlit fyrir það.

Ferðir til þessara landa hafa heillað fólk - hvert á sinn máta - og vakið með því undrun og aðdáun á því hve ólík þau eru og hversu töfrarnir eru breytilegir. En alls staðar töfrar. Og undursamlegt fólk sem tekur okkur af sérstakri hlýju og gestagleði.

Verið svo ljúf að láta slóðina ganga og hafið uppi kynningu. Við auglýsum ekki en það vita allir af þessum ferðum og liðsinni þeirra sem hafa heimsótt þessa staði er mikils metið.
Sæl að sinni og í sól og blíðu hér sunnanlands

Wednesday, March 25, 2009

Íranferð í haust-aðkallandi að vita um áhuga- vinningshafi ofl


Persneskt teppi- frá Kashan

Góðan daginn
Fór eitthvað úrskeiðis með sendingu til nokkurs hluta í gær enda þarf ég að ítreka að það er ekki óhugsandi að önnur Íranferð- og sú síðasta- verði í haust. Ég get ekki sagt ykkur neinar dagsetningar fyrr en í næsta mánuði og nú eru Íranir að ljúka við að halda upp á nýárið sitt sem gekk í garð um 20.mars.

Má þó reikna með að hún verði í lok sept. eða fyrstu daga október og einnig að dagskrá verði áþekk því sem páskaferðin er.(sjá link um Íran)

Þá bendi ég ykkur á að í pistlinum sem ég skrifaði í gær var greint frá nafni vinningshafans í getrauninni, hann er Reynir Harðarson í Garðabæ og fer væntanlega í Egyptalandsferðina í byrjun nóv.

Í gærkvöldi var ég með námskeið hjá Mími um menningu og sögu og pólitík í Arabaheiminum. Þar var fullt og Mímir hefur beðið mig að halda annað slíkt og það yrði þá 27.apr. Menn hafi samband við Mími- tali við Rósu - um það.

Ég er enn með eitt vegabréf, stimplað og fínt, Íransfara nú um páskana og það hefur ekki verið sótt til mín.

Fer á eftir í Kaupþing til að fá upplýsingar um hvort/hvernig númer á reikningum verði breytt eftir að SPRON var tekinn yfir. Læt vita um það á morgun trúlega því Marokkófarar eru beðnir að byrja að greiða skv því plani sem ég hef sent þeim, um mánaðamótin. Get bætt þar við ef út í það er farið. Ætla til Marokkó í viku í júní til að fara yfir dagskrána og skoða hótel og þess háttar.

Mér væri þökk í því ef þið létuð slóðina á síðunni www.johannaferdir.blogspot.com ganga til ættingja og vina sem gætu verið á ferðaskónum í haust

Tuesday, March 24, 2009

Vinningshafinn í getrauninni

REYNIR Harðarson er vinningshafi getraunarinnar.
Dregið var milli hans og tveggja annarra og síðan komu sjö á hæla þeirra svo árangur er vissulega hinn merkasti. Og eiginlega unnu allir því menn hafa gruflað og grúskað og fræðst.

Reynir var að vonum kátur og kvaðst ekki hafa unnið neitt síðan hann vann baðvigt í bingó í Vestmannaeyjum á áttunda áratugnum.

Við höfum bundið fastmælum að hann fari í Egyptalandsferðina í haust og þarf ég senn að ákveða mánaðardaga á hana.

Einnig gefur þetta mér kærkomið tilefni til að hvetja menn til að skrá sig í hana, skuldbindingalaust að svo stöddu en verður óskað eftir að menn hefji greiðslur í hana um mánaðamótin maí/júní.

Hvet ykkur til að láta frá ykkur heyra og hið sama gildir um Líbíu.

Óskum svo Reyni Harðarsyni til hamingju og þakka aftur öðrum fyrir myndarlega þátttöku

Monday, March 23, 2009

Svör við getrauninni----

Góðan daginn og afsakið hvað ég kem með þetta seint. Týndi gleraugunum mínum í gærkvöldi og hef verið eins og blindur kettlingur. Nú eru gleraugun fundin og ráð að snúa sér að getrauninni.

Svör bárust alls 20. Þau voru undantekningarlaust afar vel unnin. Þegar ég fór að athuga þetta vandlegar eru nokkrar spurningar sem eru vafaatriði- eða réttara sagt geta verið fleiri en eitt svar við eða heimildum sem menn hafa rannsakað við fræðistörfin ber ekki saman. Þá læt ég svarendur njóta vafans.

Vegna athugasemda sem ég hef fengið í kvöld ætla ég að ítreka að það eru aðeins þrjú Arabalönd sem hleypa mönnum inn í sín lönd með stimpil frá Ísrael.
Ísraelar fá ekki vegabréfsáritun til neinna þeirra landa sem Wikipedia telur upp.

Undantekning eru nokkrir háttsettir embættismenn sem m.a. reyndu að koma á samkomulagi við Katar fyrir nokkrum árum. Þá var nokkur áhugi á samskiptum milli Ísraela og Katara.
Það hefur einstöku sinnum komið fyrir að samskonar embættismenn Ísraels hafi fengið undantekningu til Sameinuðu arabísku furstadæmanna.EKKI ÞÓ MÖRG UNDANFARIN ÁR

Meðal þeirra landa sem upp eru talin og sögð hleypa mönnum inn með stimpil frá Ísrael er Alsír. Það er EKKI rétt frekar en önnur en þau sem ég minntist á Katar og SAF. Bahrein hleypir fólki t.d ekki inn ef svo er. Um þetta veit ég af eigin reynslu og með þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér á staðnum.

Ég var ekki að spyrja um undantekningarnar eins og má vonandi ljóst vera.



Önnur dæmi: Yasser Arafat hefur alltaf verið í ljónsmerkinu að því er ég best vissi. Nú kemur í ljós að kannski var hann að svindla sér þangað og er etv í jómfrúrmerki.
Því er ekki dregið frá þeim sem telja hann í jómfrúrmerki.

Sama gildir með stærðina á WAdi Hawdramaut í Jemen. Henni ber ekki saman því misjafnt er hvaðan og hvernig menn mæla hann.

Í þriðja lagi var ég að spyrja um Wahibasanda í Óman sem er eina SANDEYÐIMÖRKIN þar.
Ýmsir tóku það svo að spurt væri um Rub Al Khali og er því gefið rétt fyrir hvorutveggja svör.

Hvað varðar læsi/ólæsi hafa menn flett upp á ýmsum stöðum og fengið aðskiljanlegar niðurstöður.
Ég hef til viðmiðunar niðurstöðu UNESCO frá 2009

Þá er enn eitt: Elsta stafróf sem tekist hefur að ráða og spurt var um er EKKI rúna eða myndletur. Um þetta atriði eru einnig deildar meiningar. Ég ítreka að það var ekki myndletur eða rúnaletur. Hefðbundið stafróf.

Til að koma í veg fyrir leiðindi ákváðum við Gulla að meta svörin út frá þeim spurningum þar sem túlkunar- ágreiningsatriði eru ekki fyrir hendi. Vegna þessara atriða verður nafn vinningshafa ekki birt fyrr en á morgun.

Hér koma
rétt svör skv þessum fyrirvara sem gefin er

1. Arwa Ahmedsdóttir og aðalaðsetur hennar í Jibla

2. 160x12 km. Mælingar má framkvæma á fleiri háttu og teygja dalinn bæði inn í Sádi Arabíu og Óman og þá nær hann yfir 600 km lengd Oftast er hann mældur 160x12

3. 1.september

4 Michel Suleiman og er kristinn

5 Egyptaland

6. Bani Sadr, Ali Raji, Ali Khameini, Rafsanjani, Khatami og Ahmedinejad

7. Meknes, Rabat, Fez og Marrakesj

8. 133

9. Íran

10. Kabúss bin Said 23.júlí 1970

11. Jerevan, Tblisi og Bakú

12. Íran(þá Persía) árið 1908.
Skal þó tekið fram að olíublettir höfðu löngu fundist fyrr m.a. í því sem nú er Írak en venjan er að miða við þetta ár.

13. 1)Leftis Magna b) Palmyra c) Jerash
Þar sem nokkrir nefndu Petru skal tekið fram að hún var borg Nabatea. Rómverjar komu þar löngu siðar
Ýmsir nefndu Sabratha í Líbíu og auðvitað er kannski líka rétt að nefna Kyreenea þar í landi. En flestir fræðimenn telja Leftis Magna stórkostlegasta

14. Hér var spurt um Wahibasanda sem eru 200x100 km að stærð. Oft er miðað við að stærð sé áþekk og Katar eða Wales.

En gefið rétt líka fyrir Rub al Khali sem er 650 þús ferkm.

15. Ólæsi telst mest skv. UNESCO 2009 í Írak og minnst í Jórdaníu.
Skv sömu skýrslu er ólæsi kvenna í Írak 77% og Jemen 76% Ólææsi í Marokkó er einnig mjög mikið eða um 50%.

16. 1917, Balfour, utanríkisráð'herra Bretlands

17. Asma er menntuð í tölvunarfræðum og frönskum bókmenntum

18. Arafat: Sagður fæddur frá 4.ágúst til 29.ágúst og því gefið rétt fyrir bæði ljóns og meyjarmerki.

19. Ugarit við Latakia í Sýrlandi

20. Til Jórdaníu, Egyptalands og Marokkó


Eing og sjá má harla margræð getraun og því eiginlega í fullu samræmi við Miðausturlöndin sjálf.
Er verulega hrifin af því hvað menn hafa lagt hart að sér og endilega efna í svona aftur seinna.

Það eru því meirihluti þátttakenda sem kemur til greina sem vinningshafar. Gulla Pé kemur hérna á eftir og aðstoðar mig við að fara yfir svörin aftur með hliðsjón af gerðum athugasaemdum. Um þrír fjórðu svaranna er réttur með þessum fyrirvara sem gefinn er og verður að teljast æði sveigjanlegur

Þakka svo öllum fyrir þátttökuna. Bið forláts á því að ekki var nógu skýrt að orði komist í sumum spurninga. En þar sem 16 af 20 teljast með rétt svör verður að líta á það sem góðan árangur.



Jemenfarar á fundi í gær
Notalegur fundur með Jemenförum í gær. Allir fengu sér te/kaffi og sætindi, skrafað um ferðina fram og aftur. Afhenti fullbúna ferðaáætlun og lista yfir ferðafélaga. Fáeinir höfðu tilkynnt forföll, hef sent í pósti til þeirra. Við hittumst svo skömmu fyrir brottför þegar miðar verða komnir.

Thursday, March 19, 2009

Mér datt í hug Íransferð í haust- láta vita snarlega- ofl


Fáni Jemens

Sæl öll
Það hefur verið grátur og gnístran tanna af því ég gat ekki tekið fleiri í Íranferðina. Þær ástæður helstar: fyrirvari fólks var of skammur og þá reyndist heldur ekki gerlegt svona seint að fá flugmiða og gistingarmál hefðu farið í rugl og vitleysu.

Svo þess vegna fékk ég þessa bráðsnjöllu hugmynd að hafa aðra Íranferð í haust, EFTIR Marokkóferð.Og fyrir Líbíuferð- vel á minnst gjörsovel og láta vita um þátt í henni.
En til þess að svo geti orðið þarf ég að fá að vita hvort þátttaka fæst í hana. Heyra frá fólki snarlega og því verð ég að biðja ykkur að láta þetta ganga því ég var hætt að skrifa niður þá sem vildu til Írans þar sem þeir tilkynntu sig um seinan Hver láti genga til amk fimm. Verið svo væn.

Í öðru lagi í kvöld rennur út frestur í getraunina. Sendið því svör í dag og við rennum í gegnum þetta á morgun. Augljóst er að fleiri en einn og kannski fleiri en tveir eru með fullkomlega rétt svör og þá þarf að draga. Gæti vonandi sagt frá því á sunnudag.

Í þriðja lagi: Munið að skrá ykkur á kvöldnámskeiðið hjá Mími 24.mars um Menningu og sögu Miðausturlanda. Hringið í Mími, ég hef ekkert með skráningu að gera.

Í fjórða lagi: Ég er ekki ræðismaður þessara landa. Auðvitað er mér sönn ánægja að veita liðsinni en mér blöskrar stundum hvað utanríkisráðuneytið er óliðlegt við fólk og hefur takmarkaðar eða beinlínis rangar upplýsingar.

Enn eitt: bið Jemen/Jórdaníufara að mæta á fundinn á sunnudag kl. 14 eins og allr hafa fengið boð um. Við getum átt þar notalega stund og Gulla pé ætlar að ganga frá áætluninni, vel uppsettri og allir fá hana í hendur svo og lista yfir þá sem fara í ferðina. Hún er full og ég bæti ekki við. Hef leyst mál Guðrúnar C. Emilsdóttur.

Á morgun sendi ég svo greiðsluáætlun til Marokkófólks og bið þá sem vilja bætast við að láta heyra frá sér hið allra fyrsta.

Tuesday, March 17, 2009

Á fleygiferð: Íransvegabréf komin og Jemenfundur á sunnudag



Fundur með væntanlegum Jemen/Jórdaníuförum verður n.k. sunnudag kl 14. Hef sent upplýsingar til allra og bið þá sem mögulega geta að mæta. Ég get ekki fengið húsnæði á öðrum tíma vegna þess það er kennt þarna alla daga og kvöld. Þar sem Jemenhópurinn er orðinn ágætlega bústinn, 24 þátttakendur og þar af um 14 nýir finnst mér eðlilegt að við efnum í fund og skröfum saman. Einnig fá menn afhenta rétta áætlun og lista yfir þátttakendur.



Var að senda Íransförum bréf um að passarnir eru komnir í mínar hendur eftir að hafa farið til Noregs að fá stimpil. Hef einnig beðið fólk að sækja þá til mín. Vil helst láta þá í hendur fólks fremur en pósta þá vegna óhapps sem varð í fyrra en bjargaðist að visu.

Sendi á fröstudaginn greiðsluplan til Marokkófara í sept. Get bætt við 2-3 en helst ekki öllu fleirum.

Verið svo væn að láta frá ykkur heyra

Saturday, March 14, 2009

Þá er að snúa sér að Marokkó


Frá tryllta torginu í Marakesj

Rétt væri nú að þeir sem hafa hug á Marokkó og öðrum haustferðum láti vita. Hef fengið verð á eins manns herbergi í Marokkóferð og það er $300 dollarar og það er gott verð og tókst að prútta því hressilega niður svo ég er hin kátasta yfir því. Þeir sem hafa tilkynnt þáttöku í Marokkó þurfa ekki að láta mig vita aftur, þeir eru skilmerkilega geymdir á mínum lista. Nýir og áhugasamir verða hins vegar að gefa sig fram því ég ætla að loka og þá meina ég loka þeirri ferð ekki síðar en um næstu mánaðamót.

Ég vil ekki lenda aftur í þessu dæmalausa veseni eins og varð með Jemen, að sex manns bætist við á síðustu metrunum, enda hef ég ekki fengið staðfesta þá miða en vona að þeir hjá Royal Jordanian svari mér eftir helgina og þá læt ég fólkið vita og bið um að greitt verði skjótt inn á reikninginn því nú þarf að senda megnið að greiðslum út strax eftir helgina.

Vissulega er fagnaðarefni að við gætum orðið 24 í Jemenferðinni ef tekst að fá miðana í stað þess að vera 10 fyrir um tíu dögum. En vafstursmál geta líka orðið ansi snúin þegar menn tilkynna sig seint. En við sjáum til hvort þetta gengur upp.

Mun láta Jemen/Jórdaníufara vita líklega á mánudag eða þriðjudag hvenær við höfum smáfund með þátttakendum. Fer dálítið eftir hvenær ég get fengið húsnæði hjá vinum mínum í Mími símenntun.

Minni aftur á námskeið um menningu og sögu 24.mars hjá Mími. Skrá sig þar vinsamlegast, ekki hjá mér. Ég hef ekkert með skráningar að gera.

Fer nú senn að linna þessum prófkjörslátum. Mér hefur fundist fullmikið af því góða hvað frambjóðendum þykir ósköp mikið vænt um mann en láta mann svo sigla sinn sjó um leið og kosningum er lokið.

Thursday, March 12, 2009

Bætist við í Jemen - kvöldnámskeið 24.mars hjá Mími


Hrafnhildur í Sahara Vera Illugadóttir tók myndina

Sæl öll
Fyrst bið ég forláts á að hafa angrað ykkur með skeyti um vírusviðvörun, það reyndist vera gabb. Kostulegt tómstundagaman.

Fjórir hafa lýst áhuga sínum á að bætast í Jemen/Jórdaníuferðina. Hef sent út fyrirspurn til Royal Jordanian og ferðaskrifstofanna. Á ekki von á svari fyrr en eftir helgi en læt viðkomandi vita þá strax. Hef sett nöfn núverandi þátttakenda bæði í Íran og Jemen inn á listann Þátttakendur í ferðum.

Minni á getraunina. Hef fengið slatta af svörum og verður æsispennandi að vita hver ber sigur úr býtum.

Ætla að nefna að þann 24.mars er fyrirhugað eins kvölds námskeið hjá Mími símenntun þar sem ég tala um sögu og menningu Miðausturlanda. Þið getið skráð ykkur hjá Mími. Vona að þátttaka náist.

Eins og ég hef getið um verður væntanlegum Marokkóförum send greiðsluáætlun fyrir næstu mánaðamót. Þar geta nokkrir bæst við.

Myndin er Hrafnhildi Baldursdóttur í Sahara var tekin í Líbíuferðinni sl. haust. Nú þarf ég að heyra hið allra fyrsta frá hugsanlegum og áhugasömum, bæði í Líbíu í október og Egyptaland í nóvember. Bið ykkur lengstra orða að vera ekki á síðasta snúningi með það.

Það er víðar kosningabarátta en á Íslandi: Nouria skrifaði mér að krakkarnir væru að kjósa 2 formenn, stelpnahópsins og strákahópsins og sýna hina mestu útsjónarsemi í baráttunni.

Wednesday, March 11, 2009

Jemenferðin er fullskipuð! Íranfaravegabréf á leið til Noregs


Við Pezhman verðlaunagæd. Gulla eða Þóra J tók(u) myndina


Við Bab al Jemen, hliðið að gömlu Sanaa. Jk tók myndina

Mér er það mikil ánægja að segja ykkur að Jemenferðin í maí er fullskipuð því þrír bættust við í morgun og þrjá vantaði.
Ég geri örlitlar breytingar á ferðinni og mun hafa samband við alla vegna þess eftir smátíma. En við verðum sem sé átján, þar af er helmingur að fara í fyrstu VIMA ferð og hinir eru nýir. Svipað hlutfall og í Íranferð svo þetta er fín blanda. Það er einhver misskilningur í gangi þó ég hafi sagt það hundrað sinnum: fólk sem segist slá Jemenferðinni á frest og segist ætla að fara seinna virðist ekki alveg ná því að þetta verður síðasta hópferðin til Jemen.
Auðvitað höldum við stuðningsmálum okkar áfram en hópferðum lýkur við næstu áramót.
Athuga það.

Móðuramma mín, Valgerður hefði orðið 133 ára í gær, ég hallast að því að hugarorka hennar hafi ráðið úrslitum. Hún var svoddan nagli en inni fyrir sló hjarta úr gulli.

Vegabréfin á leið til Noregs

Íranfarar hittust á sunnudag og við fylltum út umsóknir og ég afhenti miða og allt það og áttum góða stund. Á mánudagsmorgun sendi ég svo út stóran pakka með vegabréfum og þessum plöggum og mörgum í viðbót til sendiráðs Írans í Osló. Þess má vænta að þetta sé um það bil að lenda í dag eða á morgun. Íslenska sendiráðið í Osló hefur lofað mér aðstoð við að sækja vegabréfin þegar þau hafa fengið stimpilinn sinn og koma þeim til mín. Stefanía Khalifeh sem bætist í hópinn frá Jórdaníu hefur þegar fengið sína áritun í Amman. Svo þetta er allt á góðu róli og ég er alls hugar fegin yfir því.

Þá hefur Shahpar sagt mér að gædinn okkar í Íran Pezhman Azizi sem verður með okkur og hefur verið í öllum ferðunum nema einni, hafi verið kjörinn besti gæd í Íran sl ár og kemur það áreiðanlega engum á óvart sem hefur verið með honum.

Friday, March 6, 2009

Íranshópur hittist á sunnudaginn- heiðursverðlaun Fréttablaðs og fleira dúllerí


"Dætur" Evu og Axels í Sanaa

Það er meiri fegurðin í veðrinu í dag og samt virðast allir vera á Facebook.

En sem sagt: sendi fyrr í vikunni bréf á alla Íransfara til að minna á fundinn á sunnudag kl. 14. Ekki gleyma 2 passamyndum og vegabréfi því ég þarf að senda öll plögg út á mánudaginn.

Það hefur smávegis bæst í Jemen/Jórdaníuhópinn og ég hef ákveðið að sú ferð skuli farin en mundi fagna því óspart og innilega ef tveir eða þrír bættust við. Þið sjáið ekki eftir því. Vildi gjarnan heyra í Möggu Pálu ef hún er innan seilingar.

Nú nú Ég vænti þess að það hafi ekki farið framhjá neinum að mér voru veitt heiðursverðlaun samfélagsverðlauna Fréttablaðsins í gær. Bara gaman að því og ágætis sammenkomst. Þar sem enginn fann þörf hjá sér til að segja takk dreif ég í að segja nokkur vel valin orð og gætti þess að ávarpa forseta okkar ekki sérstaklega heldur bara samkomuna í heild. Kannski er ég komin á nýtt mótþróaskeið.

Marokkófarar fá greiðsluáætlun sína í kringum 20. mars og hefji greiðslur 1.apr

Munið svo getraunina. Það er augljóst að menn hafa verið duglegir að gúgla því flestir sem hafa sent rétt svör. Þá verður æsispennandi að draga út þann heppna 19.mars.

Svo væri ráð að fara út og hitta sólina. Sæl að sinni

Sunday, March 1, 2009

Egyptalandsáætlun á linknum sínum. Kíkið á hana



Blessaðan daginn
Egyptalandsáætlun hefur verið sett inn á línkinn sinn og skyldu áhugasamir rannsaka hana. Verð hefur verið sett inn líka, það er með fyrirvara eins og jafnan verður að gera.
Þetta er tólf daga ferð, trúlega í byrjun nóvember en fáist ekki þátttaka í Líbíu mun ég færa hana fram í októberbyrjun og skýrist þetta sjálfsagt, einkum og sér í lagi ef menn láta mig vita hið fyrsta.
Bætti inn í hana fjórum hádegisverðum, vegabréfsáritun og ýmsu smálegu.

Sendi í gær mynd til fyrsta Íranhópsins. Sá hana á síðu Pezhmans og bað hann endilega að koma henni til mín og veit ekki betur en allir eigi að hafa fengið hana. Söguleg mynd vitanlega.
Íranshópur er að ljúka greiðslu nú um mánaðamótin og þakka þeim sem þegar hafa lokið að gera upp. Efast ekki um að hitt muni skila sér á morgun.

Vil enn hvetja ykkur til Jemen/Jórdaníufarar í maí. Nokkrir hafa bæst við en trúi ekki öðru en við náum skikkanlegum hópi þar og mætti einnig vekja athygli stuðningsmanna krakkanna okkar á henni.

Hef sagt það áður og bendi enn á: Eftir 2009 fer ég ekki með hópa í ferðalög.

Marokkó er á góðu róli og það er hið jákvæðasta mál.

Svör berast við getraun. Allt því í sólskinslagi. Nema mig vantar fleiri í Jemen/Jórdaníu svo verð haldist. Allir kallarnir mínir hafa gefið flott verð svo við getum ekki verið þekkt fyrir að aflýsa henni. Enda veit ég að það muni ekki koma til þess.