Monday, March 30, 2009

Hefð okkar vex í Íran - munið að Marokkóferð virðist full og sitthvað fleira sem menn skyldu kynna sér


Frá torginu tilkomumikla í Isfahan

Það líður ekki á löngu uns fimmti VIMA hópurinn fer til Írans og hef nú fengið bréf frá Shahpar ferðaskrifstofustýru þar sem hún vekur athygli á að þar sem við förum nú yfir 100 gesti ætli hún að hækka okkur upp og við verðum á enn betri hótelum - og hefur þó sannarlega ekki verið undan neinu að kvarta nema síður sé. Ég mun seinna í dag eða á morgun senda Íranförum nöfn og símanúmer á þessum stöðum til að þeir geti skilið upplýsingar eftir hjá sínu fólki.

Þá skal ítrekað að ég hef verulega mikinn áhuga á að við efnum til annarrar ferðar til Íran í lok sept nk vegna þess að ýmsir komust ekki með í þessa ferð sem höfðu áhuga á. Það er samt nauðsynlegt að bæta við í hana svo af verði og bið menn að láta mig vita um áhuga sinn og það helst áður en við höldum af stað nk mánudagsmorgun.
Ég get ekki gefið verð eða nákvæmar dagsetningar fyrr en í ljós kemur hvort af verður - og er raunar nokkuð sannfærð um að okkur tekst að hóa saman fólki í þá ferð.

Jemen/Jórdanía er í besta lagi
þann 5.maí og bið þá ferðalanga að ganga frá seinni greiðslu ekki síðar en á föstudag.Þar eru allir eftirvæntingarfullir og þá meina ég bæði hér og í Jemen. Héðan af bæti ég EKKI í þá ferð.

Marokkó virðist fullskipuð
Það sýnir hversu ánægðir VIMA félagar eru að Marokkóferðin 5.-16.sept er líka setin þó ég geti bætt þar aðeins við. Marokkófélagar skulu greiða staðfestingargjald nú um mánaðamótin og hafa allir fengið beiðni þar um. Verður spennandi að efna í þá ferð.
Ég ætla að skreppa þangað í júní í viku til að fara yfir áætlunina með þeim ferðaskrifstofumönnum okkar þar á bæ.

VIMA er fimm ára í apríl
Þann 27.apr. 2004 var Vina og menningarfélag Miðausturlanda stofnað og síðan hefur félagafjöldi amk. fimmfaldast og er það hið besta mál. Aðalfundur/afmælisfundur verður ef ég man rétt 3.maí og auk aðalfundarstarfa höfum við fengið ljúfan Marokkómann sem hefur búið á Íslandi í mörg ár til að tala þar og sýna myndir og er það tilhlökkunarefni.

Þegar litið er á Facebook - sem hálf þjóðin virðist dottin í þessa mánuðina- er sýnilegt að Egyptaland er á dagskrá hjá mörgum.
Við höfum eina Egyptalandsferð á planinu okkar í byrjun nóv. Í þá ferð þarf ég verulegan hóp til að úr verði. Hafa það bak við eyrað. Sama máli gegnir með Líbíu sem sló svo rækilega í gegn í fyrra. Þessar tvær ferðir plús Íran í sept lok bíða eftir fleiri þátttakendum.

Það er mjög misjafnt hvað menn eru duglegir að fá vini og ættingja í ferðir og ég hvet menn eindregið til að láta orðin jákvæð berast.

Bið menn að hafa enn og aftur í huga að ekki stendur til að efna í fleiri ferðir á mínum vegum að liðnu þessu ári.

Því er gott að enda það með glæsibrag- og er svo sem allt útlit fyrir það.

Ferðir til þessara landa hafa heillað fólk - hvert á sinn máta - og vakið með því undrun og aðdáun á því hve ólík þau eru og hversu töfrarnir eru breytilegir. En alls staðar töfrar. Og undursamlegt fólk sem tekur okkur af sérstakri hlýju og gestagleði.

Verið svo ljúf að láta slóðina ganga og hafið uppi kynningu. Við auglýsum ekki en það vita allir af þessum ferðum og liðsinni þeirra sem hafa heimsótt þessa staði er mikils metið.
Sæl að sinni og í sól og blíðu hér sunnanlands

1 comment:

Anonymous said...

While I surf blog , i found a all new trick in http://pic-memory.blogspot.com/Vistor can comment and EMBED VIDEO YOUTUBE , IMAGE. Showed Immediately!
EX : View Source.
http://pic-memory.blogspot.com/2009/02/photos-women-latin-asian-pictu...(add photos and videos to Blogspot comments).
Written it very smart!
I wonder how they do it ? Anyone know about this , please tell me :D
(sr for my bad english ^_^)

email: ya76oo@ya76oo.com
thanks.