Komiði fagnandi sæl
Fundurinn okkar í dag þar sem Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, hélt erindi um siðfræði dauðarefsinga var í einu orði sagt stórgóður. Fullt út úr dyrum og getum við VIMA fólk þó ekki kvartað undan mætingu.
Mörður Árnason var fundarstjóri og stóð vitanlega fyrir sínu og vel það. Erindi Salvarar var einstaklega áhugavert, hún talaði um hinar ýmsu kenningar siðfræðinnar hvað varðar dauðarefsingar og gerði það á skýran og flottan hátt, skilgreindi hverja fyrir sig. Það hefði mátt heyra saumnál detta meðan hún talaði.
Salvör ætlar að leyfa okkur að fá erindið og birta það á síðunni og þar geta menn kynnt sér það nákvæmlega. Læt ykkur vita þegar ég set það inn.
Að erindinu loknu báru menn upp aðskiljanlegar spurningar og urðu umræður svo líflegar að það gleymdist lengi vel að gera kaffiogtertuhlé. Það var spurt um ótal atriði, tilfinningalega dauðarefsingu, refsingu sem pólitískt tæki og allt þar á milli. Salvör svaraði af stakri kúnst, konan er þannig máli farin að allir skilja og ekki er öllum sú náðargáfa gefin. En hún á náttúrlega ekki langt að sækja málsnilldina.
Á borðum lágu ýms plögg með t.d. æviatriðum Saddams Hussein, fyrv forseta Íraks, enda óhjákvæmilegt að talið beindist um stund að því máli.
En einnig voru ferðalýsingar og menn gátu skráð sig í ferðir, gerst félagar eða bara skeggrætt og skemmt sér þegar fundarstjóri ákvað loks að nú væri þetta orðið gott í bili. Salvöru var þakkað með miklu lófataki. Hvet ykkur til að kynna ykkur erindið jafnótt og ég hef fengið það í hendur og sett það á síðuna.
Gulla Pé hafði nóg að gera að taka á móti félagsgjöldum og nokkrir nýir gengu í félagið.
Jemenverkið okkar gengur ekki bara vel heldur glimrandi. Við erum með styrktarmenn fyrir sjö stúlkur tilbúna og þeir fá nöfn og upplýsingar um sínar stúlkur fljótlega. Nouria þurfti að bregða sér af bæ en kemur aftur heim seinna í vikunni.
Svo vil ég benda væntanlegum Íranförum á að vegabréfin okkar hafa verið stimpluð og eru nú í höndum starfsmanna íslenska sendiráðsins í Osló sem munu senda þau heimleiðis á morgun. Þær Estrid Brekkan og Karí Jónsdóttir hafa reynst ómetanlegar hjálparhellur.
Læt ykkur vita hvort við sláum afhendingu þeirra saman við það þegar ég hef fengið miða.
Tveir eða þrír eiga eftir að greiða síðustu greiðslu og alla vega einn eins manns herbergisgreiðsluna, gjörsovel og gera það snarlega.Því nú hafa allar greiðslur verið inntar af hendi af minni hálfu svo það er beinlínis aðkallandi.
Það er hugsanlegt að 1-2 bætist við í Íranhópinn. Hef sent fyrirspurnir út þar að lútandi og vonast til að fá svar ekki síðar en á morgun enda ekki langur tími til stefnu og skriffinnskan það eina sem ég set út á Íranina.
Vil svo geta þess að fundur með Kákasusförum verður í kringum 10.febrúar. Þá verður farið yfir áætlun, skoðaðir myndadiskar og rabbað. Og ég á í pússi mínu nokkrar líbýskar smákökur og döðlur sem mætti gæða sér á.
Sunday, February 4, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment