Kákasusvegabréfin eru lögð af stað í ferðalag til að verða sér úti um stimpil. Íslenska sendiráðið í London mun aðstoða við þetta og ýta á Azerana ef þurfa þykir. Læt ykkur fylgjast með. Annað hvort væri nú.
Allir skiluðu öllu sem beðið var um og nú er að sjá hvað þeir eru snarir í snúningum þarna í útlöndunum. Bið menn að athuga að þó ferðin hækki ekki fyrst við fengum einn félaga í viðbót er þó aukadagurinn ógreiddur. Ég hef ekki fengið upplýst hvað það hann kostar, gæti verið svona um 7.500kr. Sjáum til með það þegar nær dregur. Áritun gefa Azerar hreint ekki ókeypis, en þessi greiðsla hefur þegar verið innt af hendi. Það er hugsanlegt að við þurfum ekki áritun inn í Georgíu og þá jafnast þetta þokkalega út.
Þá hef ég sent imeil á hópinn sem er að leggja af stað til Írans 25.febr. Við þurfum að hittast svo allir fái sína miða og vegabréf og svo verða ugglaust einhverjar spurningar í lokin. Bið menn að tilkynna þátttöku á fundinum.
Fundurinn á Akureyri verður á mánudag kl. 17 og Ingveldur VIMAfélagi hefur verið betri en engin í að arransjera og dóminera þar. Vona að þetta verði vel kynnt og við fáum fleiri félaga og kannski ferðafólk líka. Hef góða trú á Akureyringum og nágrönnum. Látið vita ef þið þekkið einhverja á svæðinu. Fundurinn verður haldinn í Háskólanum á Akureyri og allir velkomnir.
Hefur kætt mig óspart að þó nokkrir hafa lagt inn á Fatimusjóð í dag. Hvorki utanríkisráðherra né menntamálaráðherra hafa svarað beiðni um styrk að upphæð samtals hvorki meira né minna en 600 þúsund krónur (árslaun handmennta og tónlistarkennara) en eins og ég sagði í gær hefur þegar náðst upp í laun fyrir annan og hitt mjatlast vonandi.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment