Saturday, August 30, 2008
Hefðum við trúað því -
Nú stendur yfir hjá YERO úthlutun skólabúninga og annars búnaðar sem krakkarnir þurfa fyrir skólann. Nouria Nagi sendi mér þessa mynd af nokkrum af stelpunum okkar áðan.
En hver hefði annars trúað því að við gætum safnað á nítjándu milljón á 8 klst?
Dagurinn var eitt samfellt og gleðilegt ævintýri frá upphafi til enda. Fólk var farið að safnast saman við Perluna löngu áður en opnað var og allan daginn var straumur manna linnulaus, gæti ímyndað mér að fimmtán tuttugu þúsund manns hafi komið á þessum tíma.
Hóparnir sem unnu að uppsetningu síðustu daga og kvöld höfðu gert það af stakri prýði, glæsiverslanir, Miðausturlandabúð, skartverslun, búsáhöld, bækur, fatnaður af öllu tagi, skrautmunir og hver skyns varningur fauk út. Myndir frá Jemen voru sýndar á skjám,leikhorn var fyrir börn og ýms skemmtiatriði, hnífadansinn sýndur einu sinni eða tvisvar, Fatimukökur voru uppseldar áður en við var litið og svo mætti lengi telja.
Mér fannst einkenna andrúmsloftið hvað var góð og skemmtileg stemning meðal gesta sem og afgreiðslufólks.
Uppboðinu stjórnaði Bjarni Ármannsson og gerði það af skörungskap og léttleika. Hæst verð fékkst fyrir ljós Ólafs Elíassonar, 2,1 milljón og næst kom landslitstreyja Ólafs Stefánssonar sem fór á milljón og var kannski hvað harðast bitist um hana af öllum þeim kræsilegu munum sem þarna voru í boði. Fyrir uppboðið fékkst sem sagt samtals á sjöundu milljón og samtals á 19. milljón.
Eftir að vinnu lauk var starfsliði boðið í móttöku í Höfða þar sem borgarstjóri Hanna Birna bauð gesti velkomna og sagði falleg orð um verkefni og færði mér gjafir´, gæfustein sem börn í skóla Hjallastefnunni höfðu búið til, svo og listaverkabók Lovísu Matthíasdóttur. Ég þakkaði fyrir boðið og öllum fyrir þeirra einstaka framlag. Við færðum framkvæmdastjóranum okkar, Sigþrúði Ármann gjöf sem var teikning eftir jemenskt barn og ég gaf henni svo íranska míníatúrmynd svona prívat frá mér. Óskuðum svo Sigþrúði góðrar ferðar til Kína eldsnemma í fyrramálið
Loks sagði Ásdís Halla nokkur góð orð og bað Áslaugu Huldu að taka við gjöf til Exedrahópsins- einnig barnateikning frá Jemen- sem sá algerlega um uppboðið og studdi verkið með ráðum og dáð. Þá voru einnig komnar tölur um hvað markaðssala og uppboð hefði skilað og hrópuðu menn hástöfum af undrun og fögnuði þegar það var upplýst.
Minni á að markaðurinn er einnig á morgun, sunnudag, frá kl. 12-16 og hvet fólk eindregið til að koma þá og við munum lækka verðið enn, svo hafi menn gert reyfarakaup í dag býðst þeim enn meiri sæla á morgun.
Ég hef þetta ekki lengra í bili, er að velta fyrir mér hvort ég á að slá í nokkrar Fatímukökur en einhvern veginn langar mig meira í augnablikinu til að setja gómsæta matinn sem Francois Fons seldi - og verður seldur á morgun líka- inn í ofn og leggjast svo makindalega upp í sófa.
Þar sem komið var í byggingasjóðinn um 9 milljónir er óhætt að fullyrða að við höfum náð markmiði okkar sem vissulega sýndi bjartsýni og stórhug. En allt þetta fólk vann svo vel saman að það hlaut að gerast þetta kraftaverk.
Við sjáumst á morgun.Látið þetta endilega ganga áfram.
Takkkkkkkkkk. Þetta er gleðilegra en ég get með neinum orðum lýst.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
7 comments:
Æðislegar fréttir!! Þýðir þetta þá ekki að húsnæðið er í höfn?! Frábært hvað það náðist mikil samstaða um þetta meðal þjóðarinnar. Til hamingju!
Guðrún Ólafsdóttir
Þú ert algjör snilld. Hverjum hefði dottið í hug að eitthvað þessu líkt gæti komið út úr einum Perlu markaði. Til hamingju og mikið hlýtur þetta að gleða börnin og konurnar í Jemen. Fríða Bj.
Til hamingju kæra Jóhanna, hjartanlega til hamingju!
Ótrúlegt!
Sigríður
<<>> >><< <<>> >><< <<>> >><< <<>> >><<
Dr. Sigríður Halldórsdóttir
Prófessor og forstöðumaður framhaldsnáms
Heilbrigðisdeild, Háskólanum á Akureyri
Heil og sæl öll
já þetta var sannarlega mikill gleðidagur í gær. Til hamingju Jóhanna mín og við öll að þetta skyldi takast svona vel. Það sýnir hvað samtakamátturinn er mikill þegar allir leggjast á eitt. Ég er stolt af því að vera í þessum hópi sem tekst á hendur að sinna svona verkefni til að láta gott af sér leiða. Við getum allt ef viljinn er fyrir hendi. En fyrst og síðast þarf einhver að fá hugmynd til að framkvæma. Hana fékk Jóhanna og hreif með sér lýðinn með þessum æðislega árangri. TIL HAMINGJU ALLIR!!!! Eða kannski eins og Sylvía Nótt sagði forðum daga "Til hamingju Ísland með að ég fæddist hér" eða við öll. Við forréttindafólkið getum hjálpað þeim sem minna mega sín. Meira af svona. Þetta er dásamlegt.
Kveðja til allra
Olga Clausen
Til hamingju vinkona.
Hrafnhildur B
Til hamingju!
Ríkharð og Sesselja
Ég tek hatt minn ofan fyrir ykkur frábæru kynsystur.
Post a Comment