Wednesday, December 31, 2008
Fullorðinsfræðslunámskeiðið hefst eftir áramót - en áður um atburðina á Gaza
Frá fullorðinsfræðslunni
Sæl veriði öll á síðasta degi þessa afdrifaríka árs.
Stundum er freistandi að ræða um annað en ferðalög. Ég er til dæmis létt brjáluð yfir því hvað hefur verið að gerast á Gazasvæðinu undanfarna daga. Þar er grimmdin og andstyggðin svo ólýsanleg að fáu verður við jafnað.
Þar kemur tilgangsleysið svo skýrt fram: um leið og byggt er upp á þessu svæði sem er ótrúlegt að fólk geti hafst við á - er það lagt í rúst á ný. Og engu er þyrmt hvort sem það er saklaus börn, konur og almennir borgarar eða "hryðjuverkabústaðir" Hamas.
Ég er viss um að byggi ég á þessu svæði hefði ég ekki minnsta samviskubit yfir því að taka þátt í að skjóta eldflaugum yfir á hernámsliðið.
Mér finnst átakanlegt að svo virðist sem menn séu orðnir dofnir fyrir því ástandi sem Palestínumenn, bæði á Gaza og Vesturbakkanum búa við.
Einu sinni á mínum blaðamannaferli, nánar tiltekið, vorið 1995 fór ég niður til Gaza. Ísraelskur hermaður við landamærin sýndi mér óskaplegan þótta og neitaði að hleypa mér í gegn og sagði að bílstjórinn sem var Palestínumaður frá austur Jerúsalem hefði heldur ekkert leyfi.
Lengi stóð í þrefi og loks tókst leigubílstjóranum leyfislausa að smygla mér gegnum gat á girðingu, víðsfjarri varðstöðinni, eftir að ég hafði klætt mig í síða kápu og sett á mig slæðu til að vera Palestínulegri.
Daginn áður höfðu nokkrir Palestínumenn sem Ísraelar grunuðu um græsku verið settir í fangelsi og aðrir sendir á einskis manns landið sem þá var syðst í Líbanon. Ég fór og hitti fjölskyldur mannanna og einnig eina fjölskyldu sem hafði misst son sinn í átökum. Skotinn með gúmmíkúlu sem hljómar ekki hættulega en er hið skelfilegasta plat því það er rétt húðað gúmmíi yst en alvörukúla fyrir innan. Á sjúkrahúsi í Gaza fékk ég eina svona kúlu sem hafði verið plokkuð úr Palestínumanni. Ég geymi hana enn.
Gaza er óttalegt svæði og samtöl mín við fólk þar þennan dag og það sem ég sá og heyrði gerðu mig svo sjóðandi reiða að þegar ég paufaðist aftur gegnum girðinguna og við keyrðum aftur upp til Jerúsalem skrifaði ég snarlega grein um þetta og sendi til Moggans. Hún var náðarsamlegast birt hálfum mánuði síðar. Hún skipti engu máli. Og allt hefur síðan enn versnað á þessum stað.
Kannski við ættum að efna í ferð þangað svo fólk sjái með eigin augum hvers lags hörmungar eru þarna á ferð og skilji að framganga hernámsveldisins er til þess fallin að búa til andspyrnufólk eða hryðjuverkamenn- svona eftir því hvað menn vilja kalla það- úr friðsömum borgurum.
Við kvörtum hér og berjum okkur á brjóst yfir miklum vandkvæðum - og út af fyrir sig geri ég ekki lítið úr þeim, fjarri fer því - en þegar íslensk námsstúlka erlendis segist ekki eiga fyrir mat vegna lækkunar á yfirfærslu og nefnir sem dæmi að hún þurfi að nota sama tepokann í tvisvar, þá renna nú öldungis á mig tvær grímur ef ekki fleiri.
Muniði fullorðinsfræðsluna
Annars ætlaði ég að benda á að fullorðinsfræðslunámskeiðið okkar í Sanaa hefst nú eftir áramótin. Allmargir hafa þegar greitt inn á það og takk fyrir það. Við styrkjum námskeiðið sem heild en það sækja 27 konur og framlagið er sem svarar 250 dollarar. Leggist sem fyrr inn á 1151 15 551212 og kt 1402403979.
Margir sem ekki hafa komið við sögu hafa haft samband síðustu daga og lagt inn. Velhugsandi fólk sem vill leggja þessu góða máli lið. Og hafi allir þakkir fyrir það.
Sýrlandshópurinn
mun nú væntanlega hittast upp úr miðjum mánuði og vonandi flestir sjái sér fært að mæta. Nánar um það seinna.
Verðhugmyndir streyma inn
Hef fengið verðhugmynd um Líbanonferð í mars, Kákasuslandaferð í maí og Íran um páska, Jemen í maí/júní.
Það er augljóst mál að verð mun hækka um að minnsta kosti þriðjung miðað við síðasta ár. Ef ekki meira. Þó svo að reynt sé að halda öllu í lágmarki af hækkunartaginu.
Ég birti verð í kringum miðjan janúar.
Að svo mæltu óska ég ykkur enn og aftur gleðilegs árs og þakka fyrir einstaklega ánægjuleg samskipti á árinu sem kveður nú.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Veistu hvort þeir eru loksins búnir að setja textann á landamærin yfir til Gaza “Arbeit Macht Frei” Er eiginlega bara sannfærður um það.
Ólafur S.G
Post a Comment