Tuesday, August 25, 2009

Senn koma mánaðamót - og brátt fara Marokkóferðalangar að tygja sig


Sæl veriði

Nú nálgast mánaðamót og ég bið menn hafa í hug að þá greiða Egyptalandsfararnir næstu greiðslu. Vinsamlegast skv. greiðsluáætlun. Takk fyrir það.

Fundur var með Egyptalandsförum um daginn, þar sem allir fengu sín ferðagögn- áætlun, þátttakendalista, borða og merkimiða í barm og á töskur. Það var hið notalegasta.

Einnig hittust Íranfarar sl sunnudag, fylltar út umsóknir og rabbað um klæðaburð og þess háttar og hin ágætasta stemning. Morguninn eftir, þe í gær, mánudag voru svo plöggin send til stimplunar í sendiráði Írana í Osló og læt Íranfara vita þegar lengra líður hvernig þau mál skipast.

Og þar sem mánaðamót eru á næsta leiti bið ég þá sem styrkja YERO börnin okkar og ætla annað hvort að skipta greiðslu eða ljúka greiðslu að gera það á næstu dögum því ég mun væntanlega senda greiðslu fyrir amk helming barnanna áður en ég fer til Marokkó þann 5.sept. Bendi á að listi yfir stuðningsmenn sem hafa að fullu greitt er hér 2-3 pistlum fyrir neðan.

Enn vantar nokkra drengi stuðningsmenn. Sýnist flestar eða allar telpurnar vera með stuðning. Það skýrist trúlega um mánaðamótin þegar menn greiða. Bið ykkur að láta það EKKI dragast


Aðgerðarhópurinn frægi og atorkusami sem kom markaðnum okkar á laggirnar sl. haust - korteri fyrir krass svo maður tali nú góða íslensku- hittist á næstunni hjá Hlín og reynir að leggja á ráðin um næstu skref. Sömuleiðis hefur stjórn Fatimusjóðs hist og farið yfir mál þar. Í stjórn sjóðsins eru JK, Rannveig Guðmundsdóttir og Guðlaug Pétursdóttir, Ragný Guðjohnsen er lögfræðingur okkar og hefur sýnt einstaka velvild og hjálfýsi því allt þarf að vera löglegt og rétt þegar að því kemur að við kaupum hús fyrir miðstöðina.

Marokkóferðalangar fara senn að strauja og pakka og held að allir hlakki til ferðarinnar enda er hún girnileg. Allir hafa fengið miða og ferðagögn sín þar. Og allir hafa lokið greiðslu sem og Íranfarar og með góðum skilum.

Fundur haustsins verður 27.sept. Nánar um það síðar en mér virðist við hafa fengið spennandi fyrirlesara um efni sem ætti að vekja forvitni.

Það var leiðinlegt að stelpurnar okkar töpuðu í gær. En eins og þar stendur. Það gengur bara betur næst.........

No comments: