Sunday, August 30, 2009
Hörmungarástand í Jemen, Sýrlandi og Írak
Í fréttum síðustu daga og vikur hefur verið fjallað um mikla þurrka á Arabíuskaganum og Rauði krossinn mun á næstunni senda sérfræðing til Sýrlands til að kanna málið.
Við skulum heldur ekki gleyma að Jemen- fátækasta land skagans - hefur orðið skelfilega úti í þurrkunum og þeim veðurfarsbreytingum sem ganga yfir heiminn.
Bændur kaupa ekki lengur útsæði þar sem þeir telja sig sjá fram á að þar fari allt fyrir lítið. Sama hefur einnig gerst í Jemen og í Sýrlandi að fólk flýr sveitirnar og reynir að fara til borganna og þar er ástandið ekki betra.
Í Yemen Times er sagt frá heimsókn fulltrúa Matvælastofnunar S.þ þangað fyrir stuttu og lýsir hann ástandinu á öllum svæðum, t.d. Dhamar og Hodeidah þar sem ástand hefur verið þokkalegt áður en hefur nú gerbreyst til hins verra. Sömuleiðis fór fulltrúinn á þurrkasvæði víðar í landinu.
Hann sagði að ástæða væri til að óttast að þetta gæti leitt til hvers kyns hörmunga og jafnvel átaka og félagslegra vandamála þar sem staðan væri hvað verst. Einnig óttaðist hann viðbrögð fólks á þeim svæðum þar sem lítils háttar vatn er að finna, ef mikill straumur manna tæki að leita þangað. Í ferðinni hitti hann ýmsa bændur sem höfðu gripið til þess að selja búfénað sinn til að kaupa vatn og mat fyrir fjölskyldur sínar.
Mjög stór hluti Jemena reiðir sig á matargjafir góðgerðarstofnana og þurfti að flytja inn um 90% allra matvæla árið 2008. Þá hefur regntíminn í Jemen breyst, áður var hann frá því í mars og fram á maí en síðasta ár urðu ekki umtalsverðar rigningar fyrr en í ágúst.
Þetta ár hefur rignt minna en nokkru sinni. Nánast ekkert hefur heldur snjóað í fjöll.
Vonast er til að með hjálp alþjóðastofnana sé hægt að safna því vatni sem fellur í rigningum en fram til þessa hefur orðið misbrestur á því. Með aðstoð FAO er vonast til að það kunni að ganga skár ef rignir í september og október.
Víða hefur verið komið upp áveitukerfum og vatnsgeymum en það dugir vitanlega skammt ef ekki kemur dropi úr lofti.
Sérfræðingar segja að rætist ekki úr málum í Jemen og það fyrr en síðar geti hungursneyð orðið þar þegar árið 2010.
Mér er ljóst að við getum lítið gert í þessum risastóra skelfingarmáli. Ég veit að þeir sem hafa farið með VIMA til Jemen gera sér þó grein fyrir þessu vandamáli og ég held líka að það sé - kannski ekki hollt- en svona nálægt því okkur sem búum við gnægðir vatns og tökum það sem sjálfsagðan hlut að íhuga málið.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Hrikalegt ástand. Hvernig hefur hópurinn okkar það? Þ.e. hópurinn sem við styrkjum. Er þar skólahald?
Kveðja, Bryndís Sím.
Sæl Bryndís
Ramadan stendur yfir, og þá eru krakkarnir í fríi. Eftir að ramadan lýkur er hátíð en skv því sem Nouria segir eru vandræði víða hjá krökkunum okkar. Hún vonar þau komi samt flest í skólann aftur og segist hafa birgt sig allvel upp.
Kv.JK
Post a Comment