Thursday, December 27, 2007
Ákvörðun um annað hótel í Jemen -
Aftur ég, gúddag.
Eins og fram kom í pistli sem ég sendi frá Sanaa á dögunum hafði ég verulegar efasemdir um að hóparnir næsta vor ættu að vera á því hóteli sem við höfum notað þar. Þegar ég var í Sanaa fór ég á þetta margumrædda Hill Town hótel sem gestir okkar hafa verið á og þar hafði nákvæmlega ekkert breyst til batnaðar.
Því hef ég ákveðið að hóparnir verði á Sheraton í Sanaa. Það er einn galli á gjöf Njarðar- það er töluvert langt í miðbæinn. Á hinn bóginn tjáði mér Lúdmíla gestastjóri að hótelstrætó færi reglulega niður í miðbæ og eins er þar til máls að taka að leigubílar eru hræbillegir í borginni.
Eftir að hafa skoðað þetta hótel, þ.e. Sheraton varð niðurstaðan sumsé þessi. Ég held að allir ættu að vera dúsir við það. Ég veit ekki enn hvort þetta hækkar verðið, vona að það verði þá eitthvað óverulegt og við fáum langtum betra hótel í staðinn.
Ferðirnar í apríllok og í maí verða ekki alveg eins. Þar kemur til að flug Royal Jordanian setur nokkurt strik í reikninginn. En allir fá gott og margt fyrir snúð sinn vona ég.
Fyrri ferðin er 28.apríl til 13.maí.
Seinni ferðin er 29.maí til 13.júní.
Í seinni ferðina eru enn laus pláss og því fleiri sem við erum þeim mun trúlegra er að mér takist að halda verði óbreyttu. Hvet fólk til að íhuga það og skrá sig því nú er mér ekki til setunnar boðið, ég verð að ganga frá málinu hið skjótasta.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment