Saturday, June 30, 2007

Hvernig litist mönnum á þetta?

En fyrst: Maður á að nota tímann sem okkur er gefinn. Ekki fresta öllu of lengi. Það er málið númer eitt, tvö og þrjú.

Það er augljóslega áhugi á öllum ferðunum 2008 en samt þætti mér vænt um að heyra frá ykkur því ég verð að hafa góðan fyrirvara á öllu. Þetta hafið þið nú ekki heyrt fyrr.

Ferðirnar 2008 eru svona hátt í skipaðar en þó þarf að bæta við þar svo úr þeim verði. Ég þarf að hafa lágmarksfjölda til að þær verði að veruleika.
Egyptaland í febr.
Íran um páska
Jemen í apr/maí
Libya í október.
Margir hafa staðfest, aðrir telja líklega að þar sem þeir lýstu áhuga í byrjun þurfi ekki að ítreka það meira. Reynslan sýnir mér að það er ekki svo. Aftur á móti þurfa þeir sem hafa ítrekað - einkum hvað varðar Jemen og Libyu ekki að taka það fram nánar.

Um Jemenmálið okkar
Það er allt í nokkurri biðstöðu en skýrist vonandi næstu tvær vikur. Nouria er meira en fús til að koma til Íslands til að aðstoða við að kynna málið. Royal Jordanian er líka til í að veita henni duglegan afslátt á miða til London.
Svo er ýmislegt í deiglunni hvað varðar kynningarmál um byggingardæmið sem ætti að verða klárt að næstu tveimur vikum.

En svo er annað erindi:
Nú hefur ansi drjúgur hópur farið í allar ferðirnar og vill sækja heim nýjar slóðir.
Því hef ég á prjónunum 2009 16 daga ferð til Uzbekistan og Kyrgistan og streyma nú til mín upplýsingar um það.
Ég vildi gjarnan fá að heyra frá hinum verseruðu - sem og nýjum náttúrlega um það efni. Er áhugi eða hvað? Eins og maður skrifaði alltaf: Svar óskast.

Annað líka:
Kákasuslandaferð hefur ekki verið dagsett. En mér þætti ekki ósennilegt að þátttaka næðist í hana 2009 líka. Það skal ítrekað að menn láti í ljós vilja/vilja ekki. Sú ferð- ef af verður- styttist um 4 daga og verður 16-17 dagar í stað 22 eins og fyrsta ferðin.

Svo best að skjótast út og hitta sólina smástund. Látið í ykkur heyra um allt þetta. Snarlega. Og svo tek ég fram að Ómanfólkið í október hittist til að funda í ágúst snemma. Sú ferð er fullskipuð og mikið er það ánægjulegt.

Tuesday, June 26, 2007

Flugáætlun á Egyptalandsferð tilbúin

Sæl öll

Þá hef ég fengið mjög svo viðunandi tilboð í flugið til Egyptalands. Farið frá Keflavík 7.febr. kl.7,50 um morguninn til Amsterdam. Lent þar 11,50 að staðartíma.
Áfram um kvöldið kl. 21 til Kairó með hollenska flugfélaginu KLM og komið kl. rúmlega tvö um nóttina.
Heimferðin er 19.febr. um nóttina og lent í Amsterdam kl. rúmlega átta um morguninn. Heim með FI kl. 13,20.
Það er hugsanlegt að íhuga sameiginlega skoðunarferð þann tíma sem við bíðum í Amsterdam, mun kanna það og láta Egyptalandsfara vita hvað það kostar.

Ég set endanlega áætlun inn á síðuna fljótlega en hún er í megindráttum eins og meiningin er að hún verði. Það skal tekið fram að ákveðið hefur verið að ferðin frá Aswan til Abu Simbel verði innfalin í verði.

Svo fremi evran hækki ekki að ráði kostar ferðin 220 þúsund. Segi það þó með fyrirvara, vegna sveiflnanna á gjaldmiðlum.

Bendi á að við erum á mun afskaplega góðum hótelum í Egyptalandi, 4ra og 5 stjörnu. Mín kynni af þriggja stjörnu hótelum eru ekki nægilega jákvæð - amk ekki þegar verið er með hóp og ég tel þetta því góðan og nauðsynlegan kost.


Menn athugi að máltíðir eru yfirleitt ekki innifaldar, að morgunverði frátöldum.

Annað er meira og minna innifalið, þ.e. allar skoðunarferðir og aðgangseyrir á merka staði sem er býsna dýrt í Egyptalandi svona miðað við annað verðlag.

Vona að þetta kæti ykkur og bendi fólki á að það má bæta við í hópinn. Staðfestingargjald skal greiða 15.sept og síðan reglulega. Læt ykkur vita um það þegar nær dregur.

Saturday, June 23, 2007

Krabbar ferðaglaðastir allra

Eins og allir vita stunda ég merk fræðistörf hvað snertir stjörnumerki þátttakenda í VIMAferðunum.
Nú er æði langt um liðið síðan ég sinnti þessu máli og orðið aðkallandi að kanna hvernig staðan væri eins og pólitíkusarnir segja.
Og nú hef ég hér alla þátttakendur í ferðunum okkar svo þetta ætti að vera marktækt. Tek þó fram að ég taldi sjálfa sig bara einu sinni.

Þessi listi hefur verið sveiflóttur nokkuð og nokkur merki staðið upp úr en aldrei jafn afgerandi og nú. Fólk í krabbamerkinu er fjölmennast í ferðalögunum og með töluverða yfirburði yfir næsta merki.

1. Krabbar
2. Hrútar
3. Fiskar
4.-5 Naut og tvíburar
6.-7 Vatnsberar og steingeitur
8.-9 Sporðdrekar og bogmenn
10. 11Ljón og jómfrúr
12. Vogir

Það eru sem sagt tvö merki með mjög afgerandi útkomu: krabbarnir og svo á hinn bóginn vogin sem kemur langt á eftir nr.10-11. Jómfrúr hafa bætt stöðu sína stórlega. Það er sagt að vogin sé svo lengi að ákveða sig en ekki er það mín reynsla með þær vogir sem hafa á annað borð farið í ferðalögin.
Það var duggulítið erfitt að ákveða í hvort merki ætti að setja menn sem voru á mörkunum. Það breytir þó engu um niðurstöðuna. Ég er líka búin að sjá að ætti að velja afmælisdag ferðafélaga yrði 20.mars fyrir valinu. Ótrúlega margir eiga afmæli þann dag, svona miðað við að það eru aðrir 364 í árinu.

Annað mál rétt til fróðleiks:
Þar sem Sýrlandsferðinni í haust var því miður aflýst af dularfullum ástæðum- ég meina óskiljanlegt að ekki skuli hafa náðst þátttaka - ætla ég að nota tímann í sept. og bregða mér til Libyu í viku þar sem ekki vannst tími til að skoða alla staði sem mér fannst fýsilegir.
Hef jafnframt séð að libyska flugfélagið hefur langódýrastar ferðir. Hyggst því nota það og sjá til hvernig þjónusta, stundvísi og öryggi og allt það er. Það mundi þar með gera verð hagstæðara á ferðinni okkar 2008.

Nú ætla ég að taka til í kortér. Og vinsamlegast vogir: hugsið ykkar gang. Sæl að sinni.

Friday, June 22, 2007

Drög að "foreldraferðinni" til Jemen - og Jórdanía sem val í lokin

Góðan daginn

Hér birtast sem sé drög að styrktarmannaferðinni okkar til Jemen. Þetta er beinagrind og lýsingar ekki viðamiklar en set þetta inn á linkinn fljótlega. Væri líka gott að heyra í fleirum varðandi málið

Ferð er áætluð síðla apríl og fram í maí. Þar sem áhugi virðist á annarri ferð síðla maí - menn eiga ekki heimangengt m.a. vegna kennslu/náms - þætti mér vænt um að fólk viðraði áhuga sinn fljótlega.





1.dagur. Flogið til Sanaa um Frankfurt og Amman. Komið til Sanaa um nóttina. Þar tekur fulltrúi ferðaskrifstofu á móti okkur. Svo og leiðsögumaðurinn hugljúfi og hraðmælti Mohammed
2. dagur Rólegur dagur svo allir nái áttum eftir flug. Gönguferð um gömlu Sanaa eftir að menn hafa sofið rólega.
3. dagur Dagur í Sanaa. Heimsókn í YERO miðstöðina þar sem fólk hittir krakkana sína og verður reynt að koma á "fjölskyldusamkundu" síðar í ferðinni
4. dagur.Ferð til Hajjara og Manakha. Í Manakha er hádegisverður og þar sjáum við Barahnífadansana.
5. dagur. Hálfs dags ferð til klettahallarinnar Wadi Dhaar. Síðdegi frjálst
6. dagur Flogið til Múkalla og síðan keyrt um merkur og sanda og ofan í dalina stórkostlegu og til Sejjun.
7. dagur. Heill dagur í Sejjun, m.a. til Sjibam, Manhattan eyðimerkurinnar.
8. dagur Flogið aftur til Sanaa. Frjálst síðdegi
9. dagur Heimsókn í miðstöðina og helst foreldrasamkunda. Síðdegis til Thula þar sem Fatima hin eina og sanna og upphafsstúlka hugmyndanna að sjóðnum okkar býr og vísast að hún bjóði upp á góðgerðir.
10. dagur Ferð til Marib þar sem drottningin af Saba sat í denn tíð.
11.dagur Frjáls dagur í Sanaa
12. Brottför til Jórdaníu.
Þeir sem það kjósa geta siðan farið rakleitt til Ldn og heim en þeir sem vilja stoppa í Jórdaníu
fara á 12. degi niður til Petra. Gist þar.
13. Dagur Í Petra
14. Dagur Til Wadi Rum. Síðdegis að Dauða hafi og gist á Marriott hóteli
15.dagur. Busl og svaml í Dauða hafi. Síðdegis til Amman
16. dagur Ferð til Madaba og upp á Nebo fjall. Síðdegis frjáls tími í Amman
17. dagur. Heim um London

Þetta er í grófum dráttum og skýringalaust sirka sú áætlun sem við mundum hafa. Nú væri þarft að heyra frá ykkur og ekki síður að menn segi mér hvort þeir vilja vera með í Jórdaníu líka. Um verð get ég lítið sagt að sinni enda ekki komið nærri því að greiðslur hefjist þó ég muni óska eftir staðfestingargreiðslu um miðjan sept og það á raunar við um Egyptalands og Íransferð líka.
Kvakið nú blíðlega krakkar mínir.

Framhaldssagan um Maher mun halda áfram fljótlega.

Þá ítreka ég að minningarkortin eru tilbúin, svo og gjafakort bæði í almennar gjafir og sömuleiðis ef menn vilja gefa inn á ferðir vinum sínum.

Sæl öll að sinni. Má ég biðja ykkur að senda síðuna á svona fjóra kunningja. Það er mikilvægt að fleiri viti um ferðirnar og gaman frá því að segja að bæði í Ómanferðinni í okt. og Íran um páska er margt nýrra ferðalanga að stíga sín fyrstu og vonandi ekki þau hin síðustu skref með okkur.

Wednesday, June 20, 2007

Ja, tíðindin gerast- hvað haldiði nú að Maher hafi gert?

Ég var að fá imeil frá okkar elskulega sýrlenska leiðsögumanni, sem hefur verið með alla hópana okkar og við sameinuðumst um að bjóða hingað til lands fyrir tveimur árum.
Og hann segir tíðindi því hann gifti sig fyrir þremur vikum. Vissulega kominn á giftingaraldur, verður 42 ára í haust. Veit því miður ekki meira um brúðina en hef beðið Maher að gjöra svo vel og gefa okkur frekari upplýsingar.
Veit að mamman hans Mahers hlýtur að vera yfir sig glöð. Hún hefur mæðst mikið út af piparsveinsku hans. Maher hefur sjálfur sagt, oft spurður, að hann hafi engan tíma til að gifta sig. En einhverja smugu fann hann. Elsku strákurinn. Það er óskandi að hann og frúin lifi lukkuleg upp frá brúðkaupsdegi.
Fannst endilega að þið ættuð að vita þetta.
Hann harmar mjög að hópur kemur ekki í haust en vonast eftir okkur síðar.
Ég held við gætum efnt í eina Sýrlandsferð þó ekki væri nema til að hitta Maher og frú. Þau mundu ugglaust bjóða okkur heim.

Mér finnst forkunnargaman að sjá hvað menn harma að ég ætla að breyta um hótel í Sanaa! Eins og talað út úr mínu hjarta, unaðslega skemmtilegt hótel á hallærislegan hátt. Kannski endar með því að við verðum þar. Hver veit.
Ætla að setja inn á síðuna fljótlega drög að áætlun fyrir Jemen/Jórdaníu næsta ár. Minni á forgang foreldra en aðrir eru velkomnir meðan pláss er.

Tuesday, June 19, 2007

Sólin og fráhvarfseinkennin

Margblessuð

Hef fundið fráhvarfseinkenni hjá nokkrum félögum vegna þess ég hef ekki skrifað inn á síðuna í nokkra daga. Var alveg róleg, hélt allir væru úti í sólinni að hoppa og hía.

En það er ástæða til að benda á að í næstu Jemenferð ætla ég ekki að nota Hill Town. Það er vissulega með nokkurri eftirsjá að ég gef þetta hótel upp á bátinn en hef svo sem fundið að margir sjá ekki sjarmann í því: að hafa ekki sápu, að ljósin virki ekki, dýnur séu harðar(það er mjög hollt að sofa á hörðu), handklæði vanti og svoleiðis smotterí.

Ég ætla því að snúa mér að öðru hóteli sem er ekki jafn vel í sveit sett en að öðru leyti prýðilegt.

Einhvern tíma var nefnt að gaman væri að prófa hótelin inni í gömlu borg.
Get fullvissað ykkur um að eftir fyrstu nóttina væri glansinn farinn af því. Þar eru t.d. ekki lyftur, þar eru salerni sameiginleg fyrir hverja hæð og morgunverðurinn er afar rýr.

Annars þykir mér fróðlegt að flestir sem hafa haft samband eru áhugasamir um að halda Jórdaníu inni. Svo það er líklegt að við gerum það. Mætti samt íhuga að gefa fólki val í því efni. Og sem sagt: tilkynnið, tilkynnið sem fyrst.

Svo finnst mér að kennarafólk ætti að láta meira í sér heyra: Íranferðin er stíluð á páskana m.a vegna þess að það á ekki auðvelt með að komast í burtu á hvaða tíma sem er.

Egyptalandsstýran okkar er himinlifandi yfir því að von sé á hópi héðan. Þar má bæta við.
Býst við að brottför verði 7.febr. og heimkoma 18. eða 19.febr.

Mín ástkæru: látið frá ykkur heyra.
Og munið að kíkja á myndirnar hennar Veru. Hún bætti inn á linkinn heilum helling.

Varðandi Jemenhúsakaupamálið. Það er í biðstöðu meðan lagalegar og praktiskar hliðar eru kannaðar en læt vita jafnskjótt og þau skýrast.

Friday, June 15, 2007

Bendi ykkur á nýjan línk með Jemenmyndum Veru

Sælt veri fólkið

Bendi ykkur á að nýr linkur er á síðunni myndir Veru frá Jemen úr ferðinni sl. maí.
Þið skuluð kíkja á þær. Raunar hef ég beðið Veru að setja inn fleiri myndir en hún var einstaklega ötul við myndatöku í Jemen. Auðvitað er annað varla hægt, Jemen er bara svoleiðis land.

Foreldraferðin til Jemen hefur þegar fengið nokkra þátttakendur og gott mál það. Sumt kennarafólk kemst ekki á þeim tíma og það hef ég svo sem vitað, m.a. þess vegna var síðasta ferð um páska.
Sú hugmynd hefur skotið upp kolli að hafa aðra ferð til Jemen aðeins seinna. Það er allt í lagi mín vegna en þá þætti mér vænt um að menn viðruðu áhuga sinn- skuldbindingarlaust -. Legg samt enn til að sem flestir stuðningsmenn slái sér í fyrri ferðina.

Nú nú Egyptaland?Hvernig væri að drífa í því máli. Þó Egyptar séu óskipulagðir er ferðaskrifstofustýran okkar - enda hollensk- mjög skipulögð og þarf að vita allt með löngum fyrirvara.

Svo verið svo væn að láta í ykkur heyra. Það á ekki síður við um páskaferðina til Írans.

Allt í vænu. Njótið helgarinnar og verið dugleg að borða ís og pylsur, syngja ættjarðarsöngva og leika fjallkonur/fjallakalla.

Wednesday, June 13, 2007

Nú skal ég segja ykkur dálítið

Góðan daginn.

Aflýsing Sýrlandsferðar í haust vakti mikil viðbrögð. Það er gott og blessað ud for sig. Kannski átta menn sig á því betur við þessa gerð að það bara verður að tilkynna sig með góðum fyrirvara. Við erum ekki að hlaupa í sólarlandaferðir með ferðaskrifstofum. Það er undirbúningur og skriffinnska hér við þessa tölvu og eiginlega skrítið hvað elskulegir VIMA félagar eru stundum að fárast út af því hvað langan fyrirvara þurfi. Þetta á fólk allt að vita eftir og sömuleiðis bið ég fólk lengstra orða að borga á réttum tíma. Hér er ekki aukafjármagn og ég lendi í klúðri.

Þessar ferðir eru sömuleiðis þannig að þær krefjast undirbúnings svo vel eigi að vera. Ekki bara af minni hálfu heldur þátttakenda. Þeir vilja lesa sér til fyrir ferð og setja sig inn í málin eftir föngum. Allt útheimtir þetta tíma.

Þeir eru sem betur fer hinum færri. Nú skulum við fara yfir þetta.
2008
Egyptalandsferð verður 7.febr. Gjörsvovel og láta vita.
Íransferð 14. mars(eða þar um bil) Gjörsvovel og láta vita
Jemenferð í byrjun maí. Styrktarmenn barnanna hafa forgang. Gjörsvovel og láta vita.
Libyuferð í október. Gjörsvovel og láta vita.

Í allar þessar ferðir er sem betur fer komnar töluverðar fylkingar en má bæta við. Til að allt gangi upp.

Sl. mánudagskvöld var efnt til myndakvölds og samverustundar Jemen/Jórdaníuhópsins. Það var framúrskarandi stemning og glæsilegar myndir - enda varla annað hægt þegar þessi lönd eiga í hlut. Högni sýndi vídeó sem hann tók og fjölmargir diskar runnu upp á tjaldið og fleiri voru þó sem ekki komust að. Bestu þakkir fyrir þetta góða kvöld.
Og nokkru áður höfðu Íranfarar sl. mars hist. Hólmfríður bauð í ljúffenga fiskisúpu, osta, brauð og eftirrétt á heimili sínu og Steingrímur kom með creme caramel a la Steingrímur. Þar var sama uppi á teningnum og mikil kæti, vinsemd og eindrægni.

Það einkennir þessa hópa okkar, þetta er svo sérdeilis skemmtilegt fólk, allir kynnast öllum, ef þeir þekktust ekki fyrir. Vináttubönd eru mynduð í þessum ferðum og það er mikils virði og við gleðjumst yfir því.

Svo líður að því að ég skrifi þennan umrædda pistil með upphafsstöfunum sem ég gat um á dögunum. Vonandi verður það hið innan viku.

SÍÐAST EN EKKI SÍST:
Munið svo gjafakortin vegna ferða og afmæla. Athuga að minningarkort eru tilbúin.

Monday, June 11, 2007

Sýrlandsferð- af öllum- aflýst vegna þátttökuskorts

Það hlaut náttúrlega að koma að því en ekki fannst mér það skemmtilegt.
Var að aflýsa Sýrlandsferðinni í haust og finnt það hart.Það hafa flestir farið og einatt hefur Sýrlandsferð verið upphaf að frekari ferðum VIMA félaga.
Þangað hafa ríflega 200 manns farið í sjö ferðum.

Hef haft samband við þá sem höfðu skráð sig og sumir fullborgað meira að segja. Ekki gaman að því en í raun ekkert annað að gera. Stakk upp á að menn færu í Ómanferð í staðinn þó hún sé dýrari. B-planið er svo Egyptalandsferð í febrúar sem mér sýnist ætla að verða að veruleika. Vona að fólk láti í sér heyra í dag um hvað það vill gera.
Auðvitað þarf stundum að aflýsa ferðum. Það segir sig sjálft. En mikið fannst mér leiðinlegt að aflýsa Sýrlandi.

Sunday, June 10, 2007

Ómanfarafundur í vikunni - uppfært á síðum osfrv

Óneitanlega hvarflaði að mér þegar ég kíkti á blöðin og sá mynd af sendiherra Íslands til Páfagarðs og fjölskyldu hans að nú hlyti að koma ein slæðugrein í blöðunum á morgun.
Sendiherrafrúin var með slæðu, altso. Það getur varla sýnt annað en manneskjan er kúguð og í besta falli að smjaðra fyrir Benedikt heilagleika. Og ekki er hann múslimi. Eða hvað?

Annars er frá því að segja að Jemen/Jórdaníuhópurinn hefur myndakvöld annað kvöld. Gaman verður að hitta félaga og skiptast á myndum og rifja upp minningar.

Mun hafa samband við Ómanfara á morgun, því ég ætla að hafa smáfund með hópnum síðar í vikunni, trúlega síðdegis á föstudag. Minni nokkra á að þeir hafa ekki innt af hendi júnígreiðslu. Vinsamlegast ganga í það mál.

Hef uppfært á ýmsum síðum og þið ættuð að kynna ykkur það. Á Sýrlandssíðu svo og Ómans kemur klárt og kvitt fram að fleiri ferðir ekki á dagskránni en þessar í haust.
Íranferð um páska hefur nokkurn veginn fengið dagsetningu.

Engin Kákasusferð hefur verið plönuð. Nokkrar fyrirspurnir en sé til með það síðar. Allavega ekki í bráð.

Enn einn ganginn enn: Vinsamlegast hafið samband og látið vita ef áhugi er á einhverri ferð. Get ekki nógsamlega ítrekað þetta en einatt eins og fólk átti sig ekki á mikilvægi þessa.

Friday, June 8, 2007

Styrkur frá menntamálaráðuneyti!

Ja, góðan daginn.

Eins og ég hef sagt frá fyrir löngu sendi ég ráðherrum menntamála og utanrikismála bréf 7.febr. sl. og óskaði eftir 300 þús. króna styrk frá hvoru ráðuneyti til að greiða tveimur kennurum við YERO stöðina okkar í Sanaa. Síðan hefur ekkert heyrst fyrr en í dag að bréf kom frá menntamálaráðuneyti og þeir ætla að láta kr. 200 þús. í málið og ber að þakka fyrir það kærlega.

Þar sem ég geri því skóna að ráðherrar fái mikið af bréfum og beiðnum og ætla að leyfa mér að halda að utanríkisráðherra (fyrverandi altso) hafi aldrei séð bréfið, fannst mér tilvalið að athuga hvað núverandi og nýr utanríkisráðherra segir og sendi því bréf til aðstoðarkonunnar, Kristrúnar Heimisdóttur. Nú er að sjá hver viðbrögðin verða.

Mig langar að biðja VIMA styrktarfólk sem er með myndir af sínum börnum að senda mér númer á sínum börnum, þ.e. þau sem ég hef ekki sett inn á Myndir af Jemenbörnum okkar.

Hef ekki enn getað fjárfest í nýjum prentara svo þetta er töluvert vafstur og þætti vænt um ef þið bara senduð mér númer og þá set ég nafn inn.

Eftir nokkra daga ætla ég að skrifa pistil með STÓRUM STÖFUM. Það gæti orðið líflegt.

Bendi á að Sýrlands og Ómanferðir gefa enn nokkrum kost á þátttöku.
Sæl að sinni

Wednesday, June 6, 2007

Sýnishorn gjafakortanna


Hér getur að líta tvær tegundir gjafakortanna okkar sem nú eru tilbúin og bíða þess í ofvæni að menn nýti sér þau.
Inni í kortinu er texti annars vegar ef menn hugsa sér að gefa í Fatimusjóðinn til styrktar YERO verkefninu okkar og svo hins vegar ef menn vilja gefa góðvinum inn á ferðir johannatravel.
Í bígerð er að ein tegund enn verði svo útbúin og megi nota sem minningarkort.
Hvet ykkur eindregið til að láta þetta berast um víðan völl og nýta þetta óspart.

Sunday, June 3, 2007

Kákasuslandafélagar



Þessar tvær myndir var Soffía að senda. Þá efri tók Mirab bílstjóri af hópnum ásamt Soffííu rétt áður en við komum að landamærunum við Armeníu og hin er af görpunum sem gengu upp til Gergeti.
Posted by Picasa

Friday, June 1, 2007

Þetta þurfa menn að VITA

..............að gjafakortin eru tilbúin og má nálgast þau hjá mér eða með einu símtali eða imeili. Bæði til að gefa í Fatimusjóð - hugsað í gjafir handa þeim sem eiga allt eða hafa áhuga á að styrkja holl mál í staðinn fyrir að safna meira dóti. Einnig má nota þau sem minningarkort.

Í öðru lagi er hægt að fá gjafakort ef þið viljið gefa inn á ferðir. Gerum þetta nú að kröftugu máli.

Þá nefni ég að við stjórnarkonur VIMA erum að bræða með okkur hvernig við stöndum að málum í byggingu YERO og það er gaman að segja frá því að ýmsir félagar hafa þegar lagt inn
á Fatimusjóð og tekið fram að þetta eigi að renna til húsbyggingarinnar. Kæra þökk fyrir það.

En vel að merkja:
Ítreka að ferðin í ágúst- 6. sept er síðasta ferð til Sýrlands í bili. Þar eru laus pláss. Láta vita
Ítreka að ferðin í okt- 5.nóv er eina ferðin sem ég skipulegg til Óman. Laus pláss. Láta vita

Verið getur að ég taki þann þráð upp síðar en þessu verður ekki breytt.

Svo skal líka tekið fleira fram: Það er ferð til Írans um næstu páska og menn ættu að skrá sig í hana sem fyrst. Fyrir kennara ætti þetta að vera heppilegur tími. Vil taka fram að ég fæ Pezhman Azizi nú aftur sem leiðsögumann og veit að það gleður og kætir.

Það er ferð til Jemen í maí og forgang í hana hafa styrktarmenn krakkanna.
Ég biðfólk að láta vita um vilja sinn hið allra fyrsta. Auðvitað geta aðrir komist með.

Það er hugsanlegt að ég fari ferð til 10-12 daga ferð til Egyptalands í febrúar en þá verð ég að fá þátttakendur skjótlega. Endurtek skjótlega.

Það er næsta öruggt að Libyuferð verður haustið 2008 líka og ættu áhugasamir að staðfesta vilja sinn því ég nenni ekki að brenna mig á því eins og stundum hefur gerst að menn lýsa yfir
eldheitum áhuga og ég tek allt hátíðlega og átta mig ekki á að stundum er þetta bara skraf og "hentar ekki í augnablikinu en örugglega kannski einhverntíma og ef til vill" !!!
Engar greiðslur en veskú láta vita.

Hef ekki alltaf húmor fyrir því þegar fólk segist "endilega ætla nú að drífa sig í ferð með okkur Vimafélögum" einhverntíma. Einhvern tíma hvað? Ég held þessu ekki áfram endalaust elskurnar mínar.

Í kvöld hittast svo Íranfarar frá því mars og ég vona að fleiri Jemenfélagar svari snarlega svo ég geti gengið frá því. Fundur með Ómanfólki um leið og ákveðin smámál eru komin á tært.