Góðan daginn
Hér birtast sem sé drög að styrktarmannaferðinni okkar til Jemen. Þetta er beinagrind og lýsingar ekki viðamiklar en set þetta inn á linkinn fljótlega. Væri líka gott að heyra í fleirum varðandi málið
Ferð er áætluð síðla apríl og fram í maí. Þar sem áhugi virðist á annarri ferð síðla maí - menn eiga ekki heimangengt m.a. vegna kennslu/náms - þætti mér vænt um að fólk viðraði áhuga sinn fljótlega.
1.dagur. Flogið til Sanaa um Frankfurt og Amman. Komið til Sanaa um nóttina. Þar tekur fulltrúi ferðaskrifstofu á móti okkur. Svo og leiðsögumaðurinn hugljúfi og hraðmælti Mohammed
2. dagur Rólegur dagur svo allir nái áttum eftir flug. Gönguferð um gömlu Sanaa eftir að menn hafa sofið rólega.
3. dagur Dagur í Sanaa. Heimsókn í YERO miðstöðina þar sem fólk hittir krakkana sína og verður reynt að koma á "fjölskyldusamkundu" síðar í ferðinni
4. dagur.Ferð til Hajjara og Manakha. Í Manakha er hádegisverður og þar sjáum við Barahnífadansana.
5. dagur. Hálfs dags ferð til klettahallarinnar Wadi Dhaar. Síðdegi frjálst
6. dagur Flogið til Múkalla og síðan keyrt um merkur og sanda og ofan í dalina stórkostlegu og til Sejjun.
7. dagur. Heill dagur í Sejjun, m.a. til Sjibam, Manhattan eyðimerkurinnar.
8. dagur Flogið aftur til Sanaa. Frjálst síðdegi
9. dagur Heimsókn í miðstöðina og helst foreldrasamkunda. Síðdegis til Thula þar sem Fatima hin eina og sanna og upphafsstúlka hugmyndanna að sjóðnum okkar býr og vísast að hún bjóði upp á góðgerðir.
10. dagur Ferð til Marib þar sem drottningin af Saba sat í denn tíð.
11.dagur Frjáls dagur í Sanaa
12. Brottför til Jórdaníu.
Þeir sem það kjósa geta siðan farið rakleitt til Ldn og heim en þeir sem vilja stoppa í Jórdaníu
fara á 12. degi niður til Petra. Gist þar.
13. Dagur Í Petra
14. Dagur Til Wadi Rum. Síðdegis að Dauða hafi og gist á Marriott hóteli
15.dagur. Busl og svaml í Dauða hafi. Síðdegis til Amman
16. dagur Ferð til Madaba og upp á Nebo fjall. Síðdegis frjáls tími í Amman
17. dagur. Heim um London
Þetta er í grófum dráttum og skýringalaust sirka sú áætlun sem við mundum hafa. Nú væri þarft að heyra frá ykkur og ekki síður að menn segi mér hvort þeir vilja vera með í Jórdaníu líka. Um verð get ég lítið sagt að sinni enda ekki komið nærri því að greiðslur hefjist þó ég muni óska eftir staðfestingargreiðslu um miðjan sept og það á raunar við um Egyptalands og Íransferð líka.
Kvakið nú blíðlega krakkar mínir.
Framhaldssagan um Maher mun halda áfram fljótlega.
Þá ítreka ég að minningarkortin eru tilbúin, svo og gjafakort bæði í almennar gjafir og sömuleiðis ef menn vilja gefa inn á ferðir vinum sínum.
Sæl öll að sinni. Má ég biðja ykkur að senda síðuna á svona fjóra kunningja. Það er mikilvægt að fleiri viti um ferðirnar og gaman frá því að segja að bæði í Ómanferðinni í okt. og Íran um páska er margt nýrra ferðalanga að stíga sín fyrstu og vonandi ekki þau hin síðustu skref með okkur.
Friday, June 22, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment