Wednesday, January 16, 2008

Fundurinn á Ísafirði 27.janúar - og klikkaðar hugmyndir

Allir séu sælir í dag




Ég hef beðið Jemen/Jórdaníufara í apríl að senda mér upplýsingar um hvort þeir vilja eins manns herbergi. Svör hafa skilað sér nokkuð vel. Þarf að biðja fólk í seinni ferðinni, svo og í Majuhópnum að gera slíkt hið sama.
Jórdanía er að verða svo eftirsótt heim að sækja, m.a. eftir að PETRA var valin eitt af sjö undrum veraldar. Gjöra svo vel og láta í ykkur heyra.

Fyrir aðstoð Matthildar Helgadóttur á Ísafirði stefnum við Gulla Pé á að halda norður þangað og halda kynningarfund um Jemenverkefni og ferðir 27.jan. n.k. Ég hlakka til að hitta fólk þar og kanna hvort þar er ekki góður áhugi. Mér heyrist það á Matthildi sem er mikil skörungskona í félagslífinu.
Einnig hefur komið fram áhugi hjá menntaskólanemum að ég tali þar 28.jan. Það er öldungis ágætt mál.
Þann 30.jan verðum við svo með fund í Keflavík hjá símennt þar. Einnig þar stendur kona fyrir málinu, Anna L. Ólafsdóttir(Magnússonar ljósmyndara sem ég vann með til margra ára á Mogganum, sællar minningar)
En áður en af þessu verður ætla ég að skreppa í Borgarfjörðinn - fyrir atbeina Kolbrár, dóttur minnar og kennara á Hvanneyri, og áhuga skólastjórans þar og tala við krakka í skólanum á Hvanneyri og á Kleppjárnsreykjum.
Í öllum tilvikunum eru konur sem drífa í málunum.

Egyptalandsfarar hafa lokið greiðslu, þetta var fyrir smámisskilning sem alltaf getur komið fyrir og hefur nú kippst í lag. Gott er það.

Í þriðja lagi er fátt skemmtilegra- sérstaklega þegar íslenskt veður hefur allt í einu látið á sér kræla - að leika sér að hugmyndum og þá ekki síður dálítið rugluðum.
Eins og menn vita tók undirbúningur fyrstu Íranferðar hátt í tvö ár með tveimur rannsóknarferðum mínum þangað og síðan góðum árangri, nú erum við að fara í fjórðu ferðina þangað í mars. Ef guð lofar. Og tvívegis heimsótti ég svo Líbíu og allt útlit fyrir tvær ferðir þangað í haust. Þetta er VIMA félögum til sóma.
Og Kyrgistan og Úzbekistan fá góðar undirtektir og væntanlega fjölmenni á fundinum 3.febr. þar sem Þórir Guðmundsson mun tala um þessi lönd og sjálf stefni ég á för þangað í vor, eftir seinni Jemen/Jórdaníuferð.

Því er fullkomlega tímabært að fá nýjar og duggulítið bjartsýnar hugmyndir fyrir 2010 sem er raunar merkilegt afmælisár.
Þar er Eritrea.
Og Afganistan !- þá er ég raunar að tala um vesturhluta Afganistan. Ekki í sömu ferð. En Eritrea! Allavega. Hefur einhver skoðun á þessu annar en ég?
Það væri fróðlegt að heyra frá ykkur.

4 comments:

Anonymous said...

Ætla bara að segja frá því í leiðinni að ég sendi í gær til YERO greiðslu fyrir 10 konur í fullorðinsfræðslunni.
Get væntanlega sent fyrir aðrar 10 í næstu viku.
Og svo þetta innilega traust sem manni er sýnt. Ég var að fá greiðslu inn á Fatimusjóðinn og fylgdi með "Það sem þú telur brýnast." Ef þetta peppar mann ekki upp þá veit ég ekki hvað gerir það.
Kæra þökk
Jóhanna

Anonymous said...

Blessuð og gleðilegt ár
Langþráður draumur minn myndi rætast með ferð til Afgahnistan
Kv
SG

Anonymous said...

Sæl.

Takk fyrir myndina af telpunni okkar. Þú veist að við Brynjólfur viljum
sjá margt nýtt en ég held ekki Afganistan. En gaman væri að vita meira um
Eritreu og alltaf annað kastið tölum við um Líbanon.

Kveðja

Margrét og Brynjólfur

Anonymous said...

Klikkaðar? Ég veit það ekki ... En varðandi Afghanistan myndi ég vera jafn klikkuð og þú, þar er svo margt annað en strið. Eritrea? Hvernig datt þér þetta í hug? En sama sagan þar, margt sem snertir uppruna mannkynsins og það kitlar ævintýrataugina !! því ekki?