Tuesday, April 22, 2008

Glæsileg skemmtun í Barnaskóla Hjallastefnunnar í morgun- og svo komu Dóra Björg og Vala Birna líka


Kát Hjallastefnustúlka í morgun

Í morgun fór ég í skemmtilega athöfn hjá Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ og fékk afhentan afrakstur basarsins flotta sem krakkarnir héldu á dögunum og bjuggu þar til ótrúlegustu listaverk og seldu og gáfu allt í Fatímusjóð. Þetta var einstök stund þegar krakkarnir rúmlega 150 á aldrinum 5-8 ára röðuðu sér kurteislega og skipulega saman úti í svalanum og svo afhenti hver bekkjardeild og kennari hennar peningapoka. Auk þess höfðu nokkrir krakkar í skólanum haldið tombólur og það var gefið líka í sjóðinn.
Svo fékk ég einnig afhentar nokkrar gjafir sem ég fer með til Jemens n.k. mánudag og á að færa krökkunum frá hinum glöðu gefendum sem klöppuðu óspart og voru bæði ljúf og kát í framgöngu og stolt af þessum frábæra árangri og það svo mjög að makleikum.



Og hér eru þær systur Dóra Björg og Vala Birna Kristínar og Árnadætur sem komu til mín með tíu þúsund krónur sem þær höfðu safnað í baukana sína með það fyrir augum að það rynni í Fatímusjóð. Amma þeirra styrkir stúlku í Jemen og hafði vakið áhuga þeirra.

Takk ástamlega allir krakkar fyrir þessar góðu gjafir og ekki síður fyrir hugann sem að baki býr og vinnuna sem var lögð í þetta allt saman.
Er ekki að orðlengja að nú eru komnar í byggingarsjóðinn okkar 8.359.567.- krónur. Það er ævintýralegt.

Það verður smáathöfn hjá YERO miðstöðinni næsta miðvikudag þegar hópurinn fer þangað í heimsókn og vonandi get ég sett inn myndir frá því í næstu viku.

Jemen/Jórdaníufararnir hittast svo síðdegis til að fá sína miða og ferðagögn.

Minni svo enn á aðalfundinn á laugardaginn og að gefnu tilefni er hér með tekið fram að gestir og nýir félagar eru velkomnir.

No comments: