Saturday, April 19, 2008

Mál jemensku stúlkunnar

Góðan daginn öll
Fyrst og áður en lengra er haldið: þakka þeim ótal, ótal mörgu sem sendu mér bréf vegna jemensku stúlkunnar sem var í fréttum í vikunni.

Mér fannst ekki stætt á öðru en athuga málið eftir að þessi frétt kom: að 8 ára stúlka í Jemen hefði fengið skilnað frá eiginmanni sínum þrítugum en faðir hennar hefði selt hana í hjónaband.
Margir höfðu samband vegna þessa sem skiljanlegt er.

Þess vegna talaði ég við Nouriu og bað hana að athuga hvernig í málinu lægi:

Hennar svar var m.a.

"Það er ekki við því að búast að fólk sem þekkir ekki jemenskt samfélag geti botnað í máli af þessu tagi.
Í fyrsta lagi vil ég þó taka fram að 8 ára stúlka sem fer í réttarsal- ein og sjálf eins og sagt var í fréttum - er mjög sterkur karakter og enginn þarf að segja mér að hún njóti ekki stuðnings við þetta úr öllum áttum. Til þess er líka full ástæða. Allan stuðning sem hægt var að veita hefur hún fengið og nú hafa kvennasamtök í Jemen tekið hana og mál hennar upp á arma sér svo vonandi á hún eðlilegt líf fyrir höndum.
En því er heldur ekki að neita að svona gerist í Jemen og þegar ég hrærist daglega innan um fjölskyldur sem eiga verulega um sárt að binda hættir manni til að verða samdauna því- og stundum læðist óneitanlega að manni sá grunur að svona mál séu sviðsett.
Ég hef ekki fengið staðfest hvort svo var um þetta mál en þar sem telpan hefur fengið lögfræðiaðstoð án fyrirstöðu er ljóst að hennar mál verður til lykta leitt með farsælum hætti og má gleðjast yfir því.

En stundum skilja menn á Vesturlöndum heldur ekki og kannski ekki von- hvað fátækt og vanþekking, takmarkalaus skortur og eymd, sjúkleiki og brenglun getur leitt fólk út í.
Í Jemen þekkist að stúlkur séu neyddar í hjónaband 15 ára gamlar og stundum er samið um ráðahag þegar stúlkurnar eru yngri. Þið megið ekki misskilja neitt. Það er ekki af mannvonsku. En hverra kosta á fólk völ? Þegar enga vinnu er að hafa, það á ekki mat og þá meina ég í bókstaflegum skilningi og ekki er neitt betra sem við tekur?

Í kjölfar þessa hefur verið settur mikill þrýstingur á þingmenn á jemenska þinginu að sett verði lög sem banna slíkt. Það getur vel verið að það fái hljómgrunn og við skulum vona að svo verði.

Eitt af ráðunum til að koma í veg fyrir svona er að bæta hag stúlkna með því að leyfa þeim að njóta skólagöngu og það er einmitt það sem íslensku styrktarmennirnir eru að gera og ég fæ seint fullþakkað allan stuðning sem ég og mín samtök hafa fengið frá ykkur.
Vegna þess að ég veit að ég á ykkur að, gat ég til dæmis leyft mér að segja móður ellefu ára telpu sem kom til mín um daginn og sagðist eiga von á peningum þegar telpan yrði 15 ára frá biðli hennar, að ég mundi frekar reyna að fá einhverja stuðningsmenn til að greiða þá upphæð svo stúlkan gæti haldið áfram í skóla eins og hennar hugur stendur til.

Móðirin féllst á þetta og ákvað að bíða en sagðist eiga í erfiðleikum með föður dóttur sinnar sem væri sjúklingur og þarf dýra læknismeðferð. Þar sem ég þekki til hörmulegra aðstæðna þeirra endaði með því að ég féllst á að borga læknishjálp næstu þrjá mánuði og að hún gæti komið í miðstöðina og fengið matarskammta fyrir fjölskylduna um ótiltekinn tíma.

Svona er þetta nú og við vitum að barnabrúðir eru ekki aðeins hér í Jemen heldur líka í mörgum öðrum fátækum löndum.
Sú hjálp sem þið veitið gefur börnunum óskaplega mikinn stuðning því vitanlega reynum við eftir föngum að halda uppi áróðri um að þau standi á sínu og láti okkur vita hér í stöðinni ef þau heyra af slíku og það hafa þau mörg gert og við höfum þá reynt að bregðast við. Samt verðum við líka að vera gætin því annars taka foreldrarnir börnin úr skólanum og senda þau út að betla - eða í annað verra- og öll fjölskyldan er í því. Vegna þess hún á ekki í mörgum tilvikum um NEITT að velja.

Ég hef líka sagt foreldrum og börnum að þið stefnið að því að bæta aðstöðuna okkar og hjálpa til að kaupa stærra húsnæði sem gæti gagnast enn fleirum og það vekur með þeim eftirvæntingu og fögnuð. Einnig hefur fullorðinsfræðslan leitt til þess að nú eru nokkrar konurnar í henni búnar að stofna örlítil fyrirtæki og fá aðstöðu hér hjá okkur til að vinna ef sú aðstaða er ekki fyrir hendi heima - og það er hún sjaldnast."

Þetta er úrdráttur úr bréfi Nouriu og ég er mjög fegin að ég hafði samband við hana því svona fréttir skyldi maður aldrei gleypa hráar heldur íhuga fleiri hliðar þeirra.

1 comment:

Anonymous said...

Hello. This post is likeable, and your blog is very interesting, congratulations :-). I will add in my blogroll =). If possible gives a last there on my blog, it is about the Celular, I hope you enjoy. The address is http://telefone-celular-brasil.blogspot.com. A hug.