Thursday, April 17, 2008

Áríðandi tilkynning til Jemenfara í apríl og afmælisfagnaður frumburðarins

Góðan daginn

Jemen/Jórdaníufarar í fyrri ferð hafa haft samband og vilja nú senn fá sín ferðagögn.
Málið er: Ég er að bíða eftir að fá ljósritin af vegabréfsáritunum okkar, hvers og eins. Hef fengið númerin fyrir hópinn, svo áritunin er tilbúin og því er bara dagaspursmál um hvenær þetta kemur og þá hef ég samband og við reynum að hittast fljótlega upp úr helginni.

Fjórir Jemen/Jórdaníufarar ætla einnig til Libíu og komust ekki á fundinn sl. laugardag en fá áætlun afhenta samtímis Jemenmiðum og því öllu saman. Svo er fyrsta greiðsla til Líbíu 1.maí. Vinsamlegast standið í skilum. Verð þá í Jemen og get ekki athugað hverjir borga skilvíslega en þetta verður allt að vera klárt og kvitt, ekki síst nú á þessum síðustu tímum þegar allt er á fleygiferð og í rugli með gengi gjaldmiðla.
Bið þá Líbíufara sem ákváðu sig á fundinum - og ekki hafa greitt staðfestingargjald að gera það. Ég er að klára að ganga frá bókunum svo það verður að vera á hreinu.

Tveir komast í Sýrlandsferð í september. Hafa samband við mig sem allra allra fyrst.

Vona að sem flestir fái fréttabréf í pósti í dag eða á morgun.
Þá fer ég á sumardaginn fyrsta að taka á móti fjármunum þeim sem söfnuðust í barnaskóla Hjallastefnunnar og vinaskóli YERO söfnuðu á basarnum sínum og er upphæðin enn að hækka og komin í 620 þús. kr. sem er náttúrlega einstakur árangur.

Í fyrramálið er ég svo með fyrirlestur í Kennaraháskólanum um konur og trú í múslimalöndum. Þetta er held ég þriðja eða fjórða árið í röð sem Sólveig Karvelsdóttir fær mig í þetta og er venjulega afskaplega skemmtilegt.

Ég var í fjölmennum afmælisfagnaði frumburðar míns og Vimafélaga, Elísabetar, í gærkvöldi og var það vel heppnað og mikil kátína. Ræðuhöld, furðulegar uppákomur og margt fleira ásamt góðum og notalegum veitingum. Það er sniðugt að vera í blóma lífsins - ef guð lofar altso- og eiga allt í einu dóttur sem er komin hér með á sextugsaldur.
Annars var það yngsta dóttir mín, Kolbrá, og væntanlegur Jemen/Jórdaníufari nú í apr/maí sem sló í gegn í gærkvöldi með makalaust flottri ræðu um afmælisbarnið svo salurinn lá í krampa af hlátri og aðdáun. Á eftir afmælisbarninu Elísabetu var hún tvímælalaust stjarna kvöldsins. Upp með mér af því.

Ekki meira í bili.

1 comment:

Anonymous said...

Kæra Jóhanna.
Skólinn sem safnaði rúmlega 620 þús. krónum heitir Barnaskóli Hjallastefnunnar EKKI Hjallaskóli (hann er til í Kópavogi)