Monday, April 7, 2008
Nokkrir geta bæst við í Líbíu -
Fékk nokkrar fyrirspurnir um helgina hvort Líbíuferðir væru alskipaðar. Þær eru það svona nokkurn veginn en hvatti áhugasama sem vilja athuga málið til að mæta á fundinn 12.apr. í gamla Stýró við Öldugötu kl hálf fjögur og við getum athugað málið.
Hef raðað hópunum niður og vona að það raskist ekki að neinu ráði. Sá fyrri færi út 9.okt og hinn seinni 25.okt.
Á von á miðum í fyrri Jemen/Jórdaníuferð fljótlega og læt þá vita. Allir verða að mæta og sækja sína miða og ferðagögn, auk þess eru sjálfsagt einhverjar spurningar sem brenna á fólki.
Seinni Jemenferðin er líka orðin vel skipuð og þarf ekki að hækka hana. Einn ferðafélaginn tók sig til og útvegaði snarlega fjóra til viðbótar og þar með erum við harla vel stödd.
Ég las í blöðum í morgun að Össur iðnaðarráðherra og fleiri orkumenn hefðu verið að undirrita samning í Jemen um jarðhitarannsóknir og fannst það jákvætt og gæti augljóslega skapað störf og athafnir sem gætu orðið til góðs fyrir þetta illa stadda land.
Hafði samband við Nouriu og lét hana vita um styrktarmenn barna í fyrri hópnum og hún hóar þeim vonandi saman. Auk þess langar hana að börnin verði með einhver skemmtiatriði fyrir hópinn og fullorðinsfræðslukonurnar munu hafa ýmsa muni á boðstólum til að styrkja starfið.
Þakka enn og aftur fyrir þeim sem hafa lagt inn á byggingarsjóðinn okkar.(númerið er 1151 15 551212 og kt 1402403979) Hann hefur nú mjakast yfir 7 milljónir. Auk þess er skemmtilegt að krakkarnir í Hjallaskóla í Garðabæ ætla að efna til basarsins síns þann 12.apr. og gefa þá allan ágóðann til sjóðsins.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment