Saturday, April 12, 2008
Glæsilegur árangur Hjallaskóla - Líbíufundur tókst með ágætum
Ungur sölumaður í Hjallaskóla athugar innkomuna í kassann
Ég er mjög glöð að geta sagt frá því að Hjallaskóli í Garðabæ- vinaskóli YEROmiðstöðvarinnar okkar í Sanaa- hélt stórmerkilegan basar í dag og allur ágóði rennur í byggingarsjóðinn okkar.
Börnin höfðu gert hvert listaverkið öðru fegurra, þarna voru verk af öllu tagi, batik, silkiverk, tröll og álfar úr máluðum steinum, pokar með óskasteinum, kort sem höfðu verið gerð eftir myndum sem börnin höfðu gert og alls konar skraut þar sem þau skrifuðu á, elskulegar óskir um að börnunum okkar í Jemen farnaðist hið besta.
Og fleira og fleira.
Ekki fór á milli mála að þarna höfðu krakkarnir í Hjallaskóla nýtt sköpunargáfu til hins ítrasta og árangurinn var eftir því.
Við Gulla Pé fórum á staðinn og ég keypti m.a. kort eftir ungan svein, Hauk Árnason, af jemenskum strák í gulum eyðimerkursandi, Gulla fékk sér silkimynd af fiðrildum og báðar festum við auðvitað kaup á poka með óskasteinum. Tekið var fram að óskin mundi því aðeins rætast ef hún væri falleg.
Inn komu um 590 þúsund krónur sem verður að teljast frábært og eiga Hjallaskólabörn og kennarar þeirra sannan heiður skilið fyrir þetta makalaust lofsverða framtak. Það verður gaman að segja krökkunum í miðstöðinni frá þessu og ekki síður reyna að lýsa fyrir þeim hugarfarinu sem að baki býr.
Húrra fyrir þessu.
Svo var Líbíufundurinn haldinn í gamla Stýró í dag og var vel sóttur og komu flestir þeirra sem höfðu tilkynnt sig plús nokkrir mjög velkomnir og áhugasamir til viðbótar.
Við skoðuðum diskinn, fórum yfir áætlun og spjölluðum um praktísk mál og svo gerðu menn sér gott af sætindum frá Íran og skoluðu þeim niður með te og kaffi.
Fáeinir gerðu athugasemdir við í hvora ferð þeim hafði verið raðað og verður ekki vandamál að kippa því í liðinn.
Gulla veifaði tölvumúsunum og hefur nú selt fyrir um 40 þús. reiknast mér til og allt hefur runnið í Fatímusjóð.
Þá sagðist Edda ætla að sauma sérstök peningaveski fyrir ferðina og var þeim vel tekið og hún skrifaði niður pantanir og má líka senda mér beiðnir og ég kem þeim til Eddu sem afgreiðir þær snöfurlega. Það sem þannig kemur inn rennur einnig í byggingarsjóðinn. Er þeim rausnarkonum Gullu og Eddu þakkað virktavel.
Minni svo Egyptalandsfara á myndakvöldið 18. apr. Gestir eru velkomnir en ég verð að vita um þá til að geta sagt þeim á Litlubrekku eins nákvæmlega og hægt er hversu mörg við verðum.
Þá hittist "aðgerðarhópurinn" á þriðjudag og fer yfir næstu skref í fjáröflun.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment