Tuesday, April 15, 2008

Fréttabréf í vikunni- litli aðgerðarhópurinn með fund í morgun

Sælt veri fólk

Nýjasta fréttabréfið er tilbúið og við setjum það í póst í fyrramálið. Fullt af góðu efni sem ég vona að menn kynni sér vel og rækilega.

Aðalfundur VIMA verður 26.apr. kl. 14 e.h. í Kornhlöðunni eins og þar kemur fram. Eftir aðalfundarstörf mun Rannveig Guðmundsdóttir fv. alþingismaður og VIMA félagi segja frá störfum og áformum aðgerðarhópsins okkar um nýja YERO byggingu í Jemen og er þar margt fýsilegt að frétta.

Við vorum einmitt með fund í morgun, þ.e. litli aðgerðarhópurinn eða framkvæmdastjórnin eða hvað sem við viljum nú titla okkur og þar komu fram ýmsar skemmtilegar hugmyndir sem Rannveig kynnir væntanlega á aðalfundinum og eykur möguleikana á að þessi bygging okkar verði að veruleika.

Hvet menn eindregið til að mæta þar og nýir félagar og gestir eru margvelkomnir.

Endilega gera upp félagsgjöld, sjáið reikningsnúmerið á Hentug reikningsnúmer og þar kemur fram hvar á að greiða VIMA félagsgjöldin.

Ég vil líka biðja menn að skrá sig í ferðir 2009 þótt það sé kannski gert með fyrirvara og/eða spurningamerki því nauðsynlegt er fyrir mig að hafa hugmynd um hverjir eru á ferðaskóm fyrir það ár.
Mín reynsla er sú, nú orðið, að fólk planar ferðir fram í tímann í auknum mæli og það tryggir einnig að ég þurfi ekki að vísa fólki frá. Nú eða hætta við ferðir.

Það var að berast inn á byggingarsjóðinn hálfrar milljón króna gjöf og hjartkærar þakkir fyrir það. Er ekki viss um hvort viðkomandi vill láta nafns síns getið.

Þegar Hjallaskóli hefur lagt inn upphæðina sem kom inn á basarnum erum við komin með rúmlega 8 milljónir í sjóðinn. Flott það en við þurfum að ná amk 25 milljónum alls.
Minni á reikningsnúmerið 1151 15 551212 og kt 1402403979.

Einnig hafa safnast sem svarar um 2 þús. dollarar frá styrktarmönnum og öðrum góðviljuðum sem ég afhendi Nouriu í fyrri ferðinni.

Í fyrri Jemenferðinni okkar verður 100.gestur VIMA til Jemen og af því tilefni hefur forstjórinn okkar í Sanaa ákveðið sérstakan glaðning fyrir hópinn.

Ég hef ekki fengið margar fyrirspurnir um gjafa eða minningarkortin okkar upp á síðkastið en sannleikurinn er óumdeilanlega sá að þar hefur samt drjúg upphæð safnast.

Þá barst bréf frá góðum VIMA félaga þar sem minnt er á afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fv. forseta sem er í dag.
Gjafakortin okkar eru tilvalin ef menn vilja senda henni kort. Gjöra svo vel og hafa bara samband og ég kem þeim áleiðis.

EGYPTALANDSFARAR MUNI MYNDAKVÖLDIÐ N.K FÖSTUDAG KL 18

No comments: