Thursday, April 24, 2008

Félagsgjöld skili sér betur -Andakílsskólabörn gáfu jólakortasölu -



Kákasuslandaferð er meðal þess sem er á dagskrá 2009. Hér fær JK skvettu af heilögu vatni í Mtetski og Guðmundur Pétursson horfir andaktugur á.

Gulla Pé hefur verið önnum kafin við að ganga frá reikningum fyrir aðalfundinn kl. 2 á laugardag í Kornhlöðunni.

Í ljós kemur að misbrestur er á því að menn hafi staðið í skilum. Bið ykkur vinda að því bráðan bug að kippa því í liðinn.
Félagsgjald hefur verið 2 þúsund kr. og reikningsnúmer er 1151-26-2443 og kt. 441004-2220. Verið svo ljúf að greiða þetta og/eða hafa samband við Gullu ef þið eruð ekki viss um hvort þið eruð skuldlaus eða ekki. Emailið hennar er gudlaug.petursdottir@or.is.

Bendi ykkur á að ég hef sett inn á Væntanleg ferðalög uppfærðar áætlanir fyrir 2009
Þar má skoða hvað er á boðstólum og láta vita vilja sinn og það fyrr en síðar.
Nokkrir hafa spurt áhugasamir um lausu sætin til Sýrlands/Jórdaníu í sept. n.k. en síðan ekki söguna meir. Kæmi sér vel að þeir segðu af eða á og greiddu skv. áætlun því ella verður að gefa öðrum kost á að komast með í staðinn.

Einn eða tveir Líbíufarar hafa ekki greitt staðfestingargjald. Það er óheppilegt því ég verð að staðfesta flug með British Airways til Líbíu fljótlega og farið er fram á að nöfn fylgi síðan. Sömuleiðis skulu Líbíufarar byrja að borga inn á ferðina 1.maí eins og allir eiga að vita.
Bendi Sýrlandsförum á að greiðsludagur þeirra, hinn næsti, er einnig 1.maí.

Jemen/Jórdaníufarar í fyrri ferð hittust sl. miðvikudag og fengu sín ferðagögn, mauluðu íranskt sælgæti og fengu sér te/kaffi og spjölluðu. Þar var einnig afhent bréf frá Nouriu þar sem hún segir frá samkomu sem verður haldin hjá YERO í Sanaa á miðvikudag.
Ítrekað skal að ALLIR verði mættir í Leifsstöð að morgni mánudags kl.5,15.
Farangur verði tjekkaður alla leið. Fulltrúi frá Royal Jordanian hefur lofað að taka á móti okkur í Frankfurt og vísa okkur stystu leið að innritunarboði en flugstöðin sú er meira völundarhúsið.

Á Jemen/Jórdaníu fundi afhenti einn væntanlegur ferðalangur Kolbrá Höskuldsdóttir, (svo ég ættfæri hana ögn, þá er hún yngri dóttir mín) ágóða af jólakortasölu krakka í Andakílsskóla, 48 þúsund krónur. Óskað er eftir að þessir peningar renni til að greiða kennara og upphæðin dugar fyrir mjög góðum kennaralaunum í 2-3 mánuði. Eru krökkunum færðar kærustu þakkir fyrir dugnaðinn og Kolbrá fyrir ötult kynningarstarf í Borgarfirði.

Elísabet tæknistjóri okkar Ronaldsdóttir er að búa til sérstaka síðu sem ætluð er einkum fyrir krakka sem vilja kynna sér Jemenverkefnið og ef til vill leggja eitthvað af mörkum. Læt vita um það nánar seinna. Vona að kennarar innan okkar raða verði þá duglegir að segja nemendum sínum frá þessu verkefni og vísa á síðuna.

Þá hittist aðgerðarhópurinn okkar sl. þriðjudag og hefur fullt af skemmtilegum hugmyndum á prjónunum. Nánar um það þegar það tekur á sig fyllri mynd.

No comments: