Saturday, April 26, 2008

Góður aðalfundur VIMA í dag, laugardag - munið svo hálspunga og músamottur

Gott kvöld og blessað
Aðalfundur VIMA var haldinn í Kornhlöðunni í dag eins og til stóð og var hinn besti eins og jafnan þegar okkar félagar koma saman. Saknaði þó ýmissa sem hefðu mátt birtast
Aðalfundarstörf gengu vel og skipulega í hressilegri fundarstjórn Marðar Árnasonar.
Ég flutti skýrslu og starfið sl. ár, sagði frá því að nú eru um 400 manns skráðir í félagið og rakti fundi, ferðalög og starf okkar í Jemen.
Guðlaug Pétursdóttir kynnti endurskoðaða reikninga og síðan urðu nokkrar umræður um félagsgjöldin. Þó heimtur hafi verið mun betri þetta starfsárið vantar mikið á að menn standi í skilum og komu menn með ýmsar tillögur til úrbóta, m.a. að það mætti kynna félögum betur hvenær þeir skulda og hvenær ekki því ugglaust léti ekki nokkur félagi sig muna um 2000 kallinn. Hildur Bjarnadóttir stakk upp á því að gerður yrði listi yfir skuldseigustu og þá sem best standa í skilum eftir stjörnumerkjum! Það líst mér vel á og mun einhenda mér í það eftir að við komum heim frá Jemen. Gætu síðan stjörnumerkin keppst við að hvetja fólk í merkjum til að standa í skilum.



Stjórnarkjör fór fram með friði og spekt eins og jafnan í þessu góða félagi, stjórn endurkjörin og inn í hana bætist Dóminik Pledel Jónsson.

Svo sjáið þið hérna mynd af hálspungum Eddu en hún hefur sett sér það markmið að sauma og selja 50 stk(kr. 2000 stk) fyrir hundrað þúsund krónur og það fer auðvitað allt í Fatímusjusjóð.
Má hafa samband við Eddu um þetta á Edda.Ragnarsdóttir@reykjavik.is og panta.



Í hléi voru einnig seldir þessir litlu írönsku dúkar og kostar stk. þúsund krónur. Á meðan ég er í burtu mun Edda einnig sjá um það ef menn vilja fá sér.

Vil geta þess að einn félagi sem áður hefur gefið rausnarlega í Fatimusjóðinn skellti inn hundrað þúsund krónum í gærkvöldi og er það þakkað innilega.

Eftir aðalfundarstörf þustu menn svo til Gullu að borga félagsgjöld eða kaupa pung eða smádúk. Menn gæddu sér á tertum og kaffisopa og skoðuðu ferðaáætlanir fyrir 2009 en fullkomlega tímabært er að menn fari að skrá sig í þær ferðir því ég sé ekki betur en ferðir 2008 séu allar meira og minna uppseldar nema skyndileg forföll verði.

Eftir kaffihléið talaði svo Rannveig Guðmundsdóttir og sagði lítillega frá starfi aðgerðarhópsins um nýja húsið fyrir YERO miðstöðina í Sanaa og fékk það góðar undirtektir.

Svo komu ýmsar fyrirspurnir og menn röbbuðu um hitt og annað sem varðar félagið og Mörður sleit fundi upp úr hálf fjögur.

Þetta var því hinn besti fundur og við í stjórninni erum náttúrlega hissa og stórglaðar yfir að ná endurkjöri!

Íranfarar hafi í huga að myndakvöld verður í kringum 20.maí og Dóminik hefur tekið að sér að undirbúa það og mun leita eftir aðstoð frá einhverjum sem voru í þeirri ferð.

Nú tekur við fyrri Jemenferð, aðfararnótt mánudags kl. 5,15 hittumst við öll stundvíslega í Leifsstöð. Bið alla að skilja eftir slóðina á síðunni og fylgjast með því ég blogga náttúrlega um ferðir okkar og sendi væntanlega myndir inn á síðuna. Engin tilkynning verður send svo þið verðið að gjöra svo vel og drífa ykkur inn á síðuna. Skrifið endilega kveðjur inn á ábendingadálkinn.

Minni svo enn og aftur að menn standi í skilum með greiðslur inn á ferðir um mánaðamótin.

4 comments:

Unknown said...

Sælar frú Jóhanna, ég er með miklu betri hugmynd heldur en Hildur Bjarna, enda er ég hrædd um að margir myndu móðgast ef birtust listar með nöfnum þeirra sem skulda. Ekki það að það gerði mér persónulega mikið. Hvers vegna ekki að hafa þetta eins og í mörgum félögum, félgasgjöld væru tekin út af kortunum okkar einu sinni á ári og allir væru glaðir. Stór hluti myndi áreiðanlega vera til í það og þá er færri að rukka. Fríða Bj.

Anonymous said...

Þrátt fyrir fjarlægðina og löglega afsökun (nýtt ömmubarn í snjóuðum Skagafirðinum) var ég í huganum á aðalfundinum og ég hlakka mikið til að takast á við verkefnin með þessarri kröftugri stjórn.
Ein hugmynd fyrir innheimtur er að láta bankann sjá um það - eins og mörg félög gera. Bankinn tekur aukagjald fyrir þetta sem bætist á félagsgjöldin fyrir hvern meðlim, en innheimtur eru mun betri og reglulegri því greiðsluseðill er sendur hverjum og einum.
Annars óska ég ferðalöngum til Jemens góðrar ferðar, það er alltaf smá söknuður að sjá hóp fara þangað en ég bið fyrir góðri kveðjur til Nouriu og allra.
Dominique

Anonymous said...

Frá JK
Af Hildar hálfu var átt við að stjörnumerki keppi innbyrðis, ekki meiningin að birta nafnalista! Það yrði nú ekki beinlínis heppilegt. Ég hallast að því við ættum að láta taka þetta út af korti einu sinni á ári en annars býst ég við að við ákveðum þetta eftir að ég er farin og komin aftur.
Kveðjur í Heiðargerði og Skagafjörð.

Anonymous said...

Til Margrétar og Brynjólfs! Allt gott að frétta að heima. Amma Sigríður bað um að fara út að keyra og endaði hjá okkur í plokkfisk! Brynjólfur stendur sig með prýði í „you know“ og Gréta er í góðum gír! Búin að semja við vinnuna og er mjög sátt! Kom við á Flókó áðan og allt með kyrrum kjörum þar! Förum til Búdapestar í fyrramálið, mjög spennt! Hafið það sem allra best! Kossar héðan Sigga